Heiti ferðar:
Skarðsmýrarfjall (597 m.y.s)
Dagsetning:
26. maí 2004
Vegalengd (áætl.):
7 - 8 kílómetrar
Tími (áætl.)
3 - 4 tímar
Stefnumótsstaður:
Bílastæðið fyrir sunnan Rauðavatn, kl. 18:30, stundvíslega
Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:
Ekið er sem leið liggur upp að Skíðaskálanum í Hveradölum og þaðan til hægri eftir vegi sem liggur iinn á borsvæði Orkuveitu Reykjavíkur fyrir ofan Hellisskarð þar sem gangan svo hefst.
Vegslóði liggur upp að endurvarpsmastri uppi á Skarðsmýrarfjalli og er ágætt að fylgja honum eftir því sem hentar. Þegar upp á fjallið er komið er haldið áfram norður af því . Með því að halda sig austanmegin á fjallinu má sjá klofning mikinn í fjallinu, sem er í raun misgengissprunga sem sneiðir eitt horn af fjallinu.
Af Skarðsmýrarfjalli er komið ofan í Innstadal, sléttann og grasi gróinn. Handan hans má sjá inn í Hveragil þar sem leynist stór og mikill gufuhver. Haldið er austur eftir Innstadal og um dalverpi þar sem nokkrir skátaskálar leynast. Til gamans má geta þess að á þessum slóðum nötraði allt og skalf 4. júní 1998 þegar Toppatrítlarar voru þar á ferð sem frægt er. Eftir að dalverpunum sleppir er komið niður á uppbyggðan veglsóða, sem Orkuveitan hefur byggt upp á síðustu árum vegna borframkvæmda á þessu svæði, og gengið "milli hrauns og hlíða" þangað sem gangan hófst.
Þetta er ágætlega fjölbreytt gönguleið, raunhækkun er rétt um 200 metrar. Ágætis útsýni er yfir Hellisheiðina af fjallinu. Innstidalur hefur alltaf svolítinn sjarma yfir sér þar sem hann leynist umgirtur fjöllum og hryggjum allt um kring. Göngufæri er gott, vegslóðar og smágrýttir melar og engar skaðræðis brekkur á leiðinni.
Kort:
Heimildir:
Sérkort - Suðvesturland, 1:100.000, Landmælingar Íslands.
Staðfræðikort 1:50.000 nr. 1613 II, Reykjavík, Landmælingar Íslands
Hengilsvæðið, gönguleiðir, staðhættir, jarðfræði, FÍ 1996
Könnun á staðháttum