Heiti ferðar:
Stóribolli.
Dagsetning:
17. maí 2006
Vegalengd (áætl.):
8 -9 kílómetrar
Tími (áætl.)
3 klukkustundir
Stefnumótsstaður:
Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega
Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið sem leið liggur áleiðs eftir veginum til Krýsuvíkur, en beygt út af honum til vinstri og stefnt til Bláfjalla og ekið eftir þeim vegi að neyðarskýli sem er skammt frá veginum á hægri hönd. Þar hefst gangan.
Um þessar slóðir liggur Selvogsgata, gömul þjóðleið, upp í gegnum Grindarskörð og niður í Selvog sem og Reykjavegurinn, leiðin frá Reykjanesvita til Nesjavalla. Grindarskörð eru mynduð af nokkrum gígum sem standa á hlíðarbrúninni og hafa verið kallaðir bollar. Lengst til hægri eru Syðstubollar, þá Tvíbollar eða Miðbollar og lengst til vinstri og þeirra stærstur er Stóribolli (551 m.y.s.) og þangað er ferðinni heitið að þessu sinni.
Frá bílastæðinu er haldið út á hraunið og stefnan tekin lítillega austur fyrir Stórabolla, um s.k. Kristjánsdali og sneiðingur tekinn upp hlíðina. Rétt er að veita athygli hrauninu sem gengið er um, en þar má víða finna e-ð sem gleður augað.
Þegar upp á hlíðarbrúnina er komið kemur í ljós að gígurinn Stóribolli er í raun samfastur við lítið fjall, sem stundum hefur verið nefnt Kóngsfell, en Stórabolla nafninu verið skellt á allan pakkann í tímanns rás. Kóngsfells-nafnið er á e-u flakki á kortum og ekki í vísan að róa hvort ætlað Kóngsfell sé Stóribolli, eða hvort lítið fjall skammt frá sem ýmist er nefnt Litla-Kóngsfell eða Kóngsfell, sé umrætt Kóngsfell. Stóra-Kóngsfell sem er rétt við Bláfjöllin fær þó að hafa sitt nafn í friði.
Rétt er að ganga upp á Stórabolla (Kóngsfell??) og berja augum útsýnið sem er yfir hraunið allt um kring. Hraun úr Stórabolla hafa runnið allt að Helgafelli og að Undirhlíðum.
Af Stórabolla er haldið vestur með Grindarskörðunum og að Selvogsgötu / Reykjaveginum og þeirri leið fylgt að niður þar sem gangan hófst. Á niðurleiðinni má ekki sjá ýmislegt sem gleður augað og rétt að benda á að víða markar fyrir götunni í hrauninu.
Þetta er nokkuð á fótinn, raunhækkun er um 300 metrar. Göngufærið er yfir frekar slétt og mosagróið hraun.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
VisIT 4.22, Landmælingar Íslands.
Gönguleiðir á Íslandi - Reykjanesskagi, Einar Þ. Guðjohnsen
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur
Íslenskar eldstöðvar, Ari Trausti Guðmundsson
Selvogsgata og Krýsuvíkurleiðir - Ólafur Þorvaldsson