Heiti ferðar:
Þrándarstaðafjall.
Dagsetning:
14. júní 2006
Vegalengd (áætl.):
10 kílómetrar
Tími (áætl.)
4 - 5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:
Bílastæðið við Select á Vesturlandsvegi (vestanmegin), kl. 18:30, stundvíslega.
Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið sem leið liggur upp í Hvalfjörð og að Fossá. Strax og ekið hefur verið yfir brúnna er beygt til hægri inn á vegslóða sem liggur upp hlíðina og honum fylgt eins langt og hægt er.
Stefnan er sett strax til fjalls og gengið upp hlíðar Dagmálafjalls. Til að byrja með er farið í gegnum smá kjarr og lyngi grónar hlíðar en eftir því sem ofar dregur verða fyrir fótum hefðbundnir móar og melar. Róleg og aflíðandi hækkun er upp Þrándarstaðafjallið (507 m.y.s.) og rís það hvað hæst skammt fyrir ofan Húsagil sem opnast niður í Brynjudal.
Af toppi Þrándastaðafjalls verður haldið til vesturs niður Hjaltadalstungu, yfir Hjaltadal og Hjaltadalsá, utan í Hornafelli niður í Seljadal og að samnefndu býli, en þar var búið allt til ársins 1921. Það eru nú rústir einar. Niður Seljadal rennur Seljadalsá og þar sem hún sameinast Hjaltadalsá kallast hún Fossá eftir það. Frá rústum Seljadals verður haldið niður dalinn þangað sem gangan hófst.
Þetta er ekki mjög brött leið. Raunhækkun er um 400 metrar og er hún tekin á um 4 km. Göngufæri er eins og áður segir um kjarri vaxið land, móa og mela.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.

Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur.