Heiti ferðar:
Seljadalur.
Dagsetning:
25. apríl 2007
Vegalengd (áætl.):
8 - 10 kílómetrar
Tími (áætl.)
3-4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið fyrir sunnan Rauðavatn kl. 18:30, stundvíslega

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Að þessu sinni verður ekið eftir þjóðvegi 1, Suðurlandsvegi, beygt til vinstri af honum inn á Nesjavallaveg. Ekið eftir þeim vegi upp fyrir Djúpadal, farið út af honum til vinstri inn á ómerktan vegslóða og ekið eftir honum nokkurn spotta.
Við erum nú komin á slóðir gamla Þingvallavegarins. Þessi vegur var lagður austur að Þingvöllum á árunum 1890 - 96. Þegar Friðrik 8. og 200 manna fylgdarlið hans var væntalegt til landsins árið 1907 var vegurinn endurbættur og gerður konungsfær. Mest var þó lagt í hann nærri Þingvöllum. Árið 1913 var bifreið svo í fyrsta skipti ekið eftir þessum vegi og þjónaði hann sem akvegur eftir það í hálfan annan áratug. Nýr vegur tók svo við af þessum vegi fyrir Alþingishátíðina 1930 og er hann grunnurinn að núverandi vegi. Gamli Þingvallavegurinn lagðist síðan smátt og smátt af, en fyrir lýðveldishátíðina 1944 kom til greina að endurbyggja hann til að greiða fyrir umferð. Frá því var þó horfið vegna kostnaðar. Þessi vegur þjónar nú nánast eingöngu aðáendum hins ferfætta þarfasta þjóns. Eitthvað hefur þó verið um það að menn hafi farið þennan veg akandi og á þolinmæðinni.
Leið hins gangandi liggur hins vegar eftir slóðanum um 4 km. leið, en þá verður sveigt út af honum til norðurs og gengið niður að Þrengslum sem skila að Efri- og Neðri-Seljadal. Þaðan verður svo gengið sem leið liggur niður Seljadal og þangað sem gangan hófst. Seldalur dregur nafn sitt af þeim mörgu Seljum sem voru þar á árum áður. M.a. áttu gömlu Reykjavíkurbæjirnir og Nes á Seltjarnarnesi selför í dalinn.
Göngufæri gæti verið nokkuð þungt undir fæti og óslétt, enda förinni heitið um torfæra veglsóða og þýft heiðarlandslag.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur.
www.ferlir.is

www.lmi.is