Heiti ferðar:
Grafardalur.
Dagsetning:
02. maí 2007
Vegalengd (áætl.):
10 kílómetrar
Tími (áætl.)
4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið fyrir Select á Vesturlandsvegi (vestanmegin) kl. 18:30, stundvíslega

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið verður eftir Vesturlandsvegi, þjóðvegi 1, að Esjumelum sem eru skammt fyrir norðan Leirvogsá. Þar verður sveigt út af þjóðveginum til hægri og ekið sem leið liggur inn dalinn sem Leirvogsá rennur eftir. Þar sem vegurinn kvíslast, skal taka afleggjarann til hægri og halda áfram inn dalinn og allt að Grafardal. Grafardalur nefnist dalurinn sem liggur á milli Kistufells og Þverárkotsháls. Niður dalinn kemur Grafará sem sameinast svo Leirvogsá. Á ármótunum varð sviplegt slys mánudagsmorguninn 20. apríl 1953 er maður drukknaði á leið yfir ánna á hesti. Mikill vöxtur hafði hlaupið í ánna um nóttina og varð hún sem allra jafna er sakleysisleg spræna, illfær fyrir hesta. Þótti sýnt að bóndinn hefði fallið af hesti sínum við að fara yfir ánna. Um þetta má lesa á baksíðu Morgunblaðsins, þann 21. apríl 1953.
Gangan hefst við Grafará og gengið er upp með henni inn, eða upp (allt eftir því hvernig litið er á það) dalinn. Á hægri hönd er Þverárkotsháls og upp af klettunum efst í honum er Hátindur (909 m.y.s) sem lengi vel var talinn hæsti tindur Esju. Síðari tíma mælingar sýndu þó að Hábunga (914 m.y.s.) var sjónarmun hærri. Á vinstri hönd eru hamrar og brattar hlíðar Kistufells (843 m.y.s). Að kvöldi 20. júlí 1982 var flugslys ofarlega í austurhlíðum Kistufells þar sem lítil flugvél með fjóra farþega innaborðs fórst. Áfram heldur gangan upp dalinn sem þrengist nú heldur. Ef veður og tími leyfir þá verður stefnan nú tekin til vesturs og upp á Kistufell. Gangan er nú töluvert á fótinn enda hlíðarnar nokkuð brattar á þessum slóðum. Að ofan er Kistufellið nokkuð grýtt, en auðfarið. Aðgátt skal höfð við að fara nærri brúninni þar sem mjög víða er snarbratt niður.
Niðurleiðin er frekar brött og þarf að passa það að lenda ekki klettum. Í slæmu skyggi er ekki ráðlegt að þvælast þarna mikið um.
Göngufæri er nokkuð á fótinn, með öðrum orðum fyrst upp og svo niður. Mólendi undir fæti.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur.
www.ferlir.is

www.lmi.is
www.timarit.is