Heiti ferðar:
Eldborg í Brennisteinsfjöllum.
Dagsetning:
16. maí 2007
Vegalengd (áætl.):
12-14 kílómetrar
Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Enn einu sinni verður haldið áleiðis til Krýsuvíkur en látið staðar numið eftir að komið er yfir Vatnsskarð og vélfákarnir tjóðraðir þar.
Stefnan verður tekin strax til fjalls og haldið upp Vatnshlíðarhorn sem er nokkuð snörp hækkun. Rétt er að minna á það að engin verðlaun eru í boði fyrir að vera fyrstur upp. Eftir að upp bratta fláann er komið er frekar flatt frammundan áleiðis inn að Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Gengið er eftir hrauni því er hefur komið m.a. úr Eldborg og fleiri gígum þarna í nágrenninu. Það hefur flætt þarna niður, dreift úr sér og svo að lokum fallið beggja vegna Vatnshlíðarhorns, m.a. niður í Fagradal í tilkomumikilli hraunelfur sem verður farin í bakaleiðinni. Hraunið er tiltölulega slétt yfirferðar og víða er það bert og slétt og því auðvelt yfirferðar.
Í Brennisteinsfjöllum má finna eina ósnortna eldstöðvakerfið á Reykjanesskaganum. Menn hafa nokkuð horft til þess að þarna væri fýsilegur virkjanakostur. Sem betur fer hefur ekkert orkufyrirtæki tekið ákvörðun um að virkja þarna og fær því þetta svæði að vera í friði enn um sinn. Einu ummerkin um rask af mannavöldum er í brennisteinsnámunum sem eru norðaustur af Kistufelli.
Eftir að Eldborg og nágrenni hefur verið kannað er haldið nánast sömu leið til baka og haldið niður í Fagradal, eftir hraunelfunni sem áður var minnst á.
Göngufæri er nokkuð gott, frekar slétt hraun og greiðfært yfirferðar. Nánast öll hækkun er tekin strax í upphafi er farið verður upp Vatnshlíðarhornið. Eftir það er mjög róleg hækkun.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
www.ferlir.is

www.lmi.is
www.utivist.is