Heiti ferðar:
Skúlatúnshraun
Dagsetning:
9. apríl 2008
Vegalengd (áætl.):

6 - 8 kílómetrar

Tími (áætl.)
2 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið verður sem leið liggur áleiðis eftir veginum til Krýsuvíkur en síðan beygt af honum til vinstri inn á nýja Bláfjallaveginn. Honum fylgt nokkuð upp fyrir girðingu sem markar lendur Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Bessastaðahrepps og að smá afleggjara til hægri inn í malarnám. Þar hefst gangan.
Stefnan er tekin til norðausturs upp á Markraka (213 m.y.s) en þar er markpunktur fyrir landamerki milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Bessastaðahrepps. Á leið upp á Markraka er gengið um Dauðadali en þar má víða finna hella sem kallast Dauðadalahellar. Haldið er niður af Markraka til vesturs og gengið yfir nokkuð úfið hraun sem sennilega er komið ofan úr Grindarskörðum rétt um árið 950 eftir Krists burð. Eftir að hafa klöngrast gegnum hraunið er komið á nokkuð sléttara hraun er Skúlatúnshraun heitir. Dregur hraunið nafn sitt af grasi grónum hól er Skúlatún kallast. Í hrauninu, skammt sunnan Helgafells er gjá ein sem kallast Gullkistugjá. Ekki er ljóst hvort kista með glitrandi djásnum kunni að vera falin þar, eins og nafnið gefur til kynna, en það væri í góðu lagi að svipast um eftir henni, skattfrjálst.
Frá Gullkistugjá er strikið tekið til suðurs, í átt að Leirdalshöfða handan Bláfjallavegarins. Gengið er umhverfis hann og upp með hlíðum Lönguhlíðar þangað sem gangan hófst.
Eins og ljóst má vera af leiðarlýsingunni er mikið gengið í hrauni og mosa. Á þessum árstíma, snemma í apríl, er mosinn frosinn og því þokkalegur til göngu. Göngufærið er eftir sem áður nokkuð óslétt. Seinni hluta leiðarinnar, kringum Leirdalshöfða, er gengið eftir melum.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1984, Reykjanesskagi vestan Selvogsgötu, FÍ 1984