Heiti ferðar:
Selvatn
Dagsetning:
16. apríl 2008
Vegalengd (áætl.):

5 - 7 kílómetrar

Tími (áætl.)
2 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís (austanmegin) við Suðurlandsveg kl. 18:30 stundvíslega

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið verður eftir Suðurlandsvegi og sveigt af honum til vinstri við veginn upp að Hafravatni. Ekið sem leið liggur eftir honum og inn á Nesjavallaleið. Við Djúpadal skilja leiðir við vélfákana og tveir seinþreyttir taka við.
Í Djúpadal áði Friðrik VIII konungur árið 1907 er honum var borinn árbítur á leið á leið sinni til Þingvalla. Skorti þar hvorki fast né fljótandi, enda sögðu arfaillir bindindismenn þess tíma að rekja hefði mátt ferð konungs um landið af kampavínsflöskunum sem urðu viðskila við föruneytið á ferð þess.

Svæðið sem nú er gengið um kallast Miðdalsheiði og markast af Lyklafelli og allt suður að Suðurlandsvegi. Nafnið er til komið af fyrsta bæ sem komið er af Mosfellsheiðinni. Frá Miðdal er hinn kunni íþrótta, -útivistar og listamaður Guðumundur Einarsson, kenndur við Miðdal. Á Miðdalsheiði eru nokkur vötn og tjarnir og má þar helst nefna Silungatjörn, Krókatjörn og Selvatn en umhverfis það vatn er ferðinni heitið.
Selvatn liggur í smá kvos sem veitir smá skjól fyrir veðri og vindum af Mosfellsheiðinni, enda er þónokkur sumarhúsabyggð við vatnið og einhver skógrækt. Vatnið er um 0,38 ferkílómetrar að stærð, dýpst er það um 40 metrar og það liggur í um 131 metra hæð yfir sjó. Einhver veiði er í vatninu og sagan segir að þar hafi veiðst öfuguggar, en þeirra hefur ekki orðið vart lengi.
Gangan hefst við Djúpadal eins og áður segir og gengið eftir vegslóða til suðurs. Fljótlega sést ofan á Selvatn og norðan við er gil og eftir því rennur lækur niður í vatnið. Einhver sumarhúsabyggð er þarna við gilið og verður að fara meðfram lóðunum niður að vatninu. Til að byrja með verður farið niður með vatninu vestanverðu alveg niður að Gudduósi, en svo nefnist ósinn þar sem lítil á rennur úr vatninu. Hún sameinast svo Hólmsá sem svo endar úti í Elliðavatni sem Hólmsá eða Bugða, eftir því hvar hún rennur á lokasprettinum. Koma verður í ljós hvort hægt er að stikla hana eða hvort beita þurfi öðrum ráðum. Þegar yfir ósinn er komið er haldið aðeins út á Miðdalsheiðina og sveigt svo til norðurs í átt að vatninu og haldið áfram upp með því þangað sem gangan hófst við Djúpadal.
Göngufæri er svona hefðbundið heiðarlandslag, móar og melar, þúfur og skvompur. Engin stórkostleg hækkun eða lækkun er á leiðinni sem orð er á gerandi.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur FÍ 1985
www.nat.is