Heiti ferðar:
Stóra-Lambafell og Litla-Lambafell
Dagsetning:
23. apríl 2008
Vegalengd (áætl.):

7-8 kílómetrar

Tími (áætl.)
3 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið verður eftir þjóðvegi 42 til Krýsuvíkur og allt suður fyrir Kleifarvatn. Rétt áður en komið er að Bleikhól er farið út af veginum til vinstri og ekið eftir vegslóða að Hvömmum undir Hvammaholti þar sem gangan hefst.
Fellin tvö sem kennd eru við stóra og litla Lamb eru basalt
fell sem skorin eru með misgengissprungum. Stóra-Lambafell (231 m.y.s) og Litla-Lambafell (230 m.y.s) rísa um 80 metra yfir umhverfið. Eitthvað virðist þó Litla-Lambafell hafa farið á flakk á kortum, því ef borin eru saman Atlaskortið (1:100.000), DMA kortið (1:50.000) og svo nýrri kort þá kemur í ljós að í tímanns rás þá hefur Litla-Lambafell heldur færst austur á bóginn. Hæð sem er merkt sem 258 m.y.s.virðist nú hafa fengið þetta nafn, hvernig sem á því stendur.
Svæðið milli fellanna tveggja er stærsta mýrin í Reykjanesfólkvanginum og vaxa algengar mýrarplöntur eins og mýrarstör, gulstör, klófífa og engjarós. Fyrir þá sem ekki þekkja þessar plöntur, þá er www.fauna.is fyrirtaks vefur til að komast að því.
Skammt suður og austur af fellunum tveimur eru Austurengjar og þar eru nokkrir hverir. Engjahver er þeirra mestur og stendur af honum strókur mikill. Þessi hver er talinn hafa myndast í jarðskjálftum árið 1924. Þetta svæði er nú í sigtinu sem virkjanasvæði. Eins og nærri öllum hverum skal aðgát höfð.
Frá hverasvæðinu er nú haldið til norðurs og hæðirnar þræddar í átt að Kleifarvatni. Þegar að vatninu er komið er gengið meðfram því eftir bílslóða allt þangað sem gangan hófst.
Gengið er bæði um gróið svæði og mela. Þar sem gróið er gæti verið þungt undir fæti og e-r bleyta. Mest hækkun á leiðinni er um 80-100 metrar.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
www.nat.is
www.fauna.is
www.ferlir.is