Heiti ferðar:
Hjálmur
Dagsetning:
5. maí 2008
Vegalengd (áætl.):

7-8 kílómetrar

Tími (áætl.)
3-4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís (austanmegin) við Suðurlandsveg kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið sem leið liggur eftir Suðurlandsvegi og beygt af honum til vinstri inn á veginn að Nesjavöllum. Eftir um rúmlega 3 kílómetra akstur er beygt til vinstri í átt að Hafravatni og ekið eftir þeim vegi u.þ.b 1,5 kílómetra og þá beygt enn og aftur til hægri inn á veginn sem liggur upp í grjótnámið í Þormóðsdal. Við grjótnámið hefst svo gangan.
Leiðin liggur til norður upp með Hulduhól og þaðan upp á Torfadalshrygg. Þar er sveigt mót austri fyrir botn Torfadals serm er á vinstri hönd alla leið á koll þann sem er merktur Hjálmur (440 m.y.s.) á kortum. Hjálmur er vestantil í Grímansfelli (482 m.y.s.) sem er eitt af fellunum í Mosfellsbæ og gengur það ýmist undir nöfnunum Grimmansfell, Gímarsfell eða Grímansfell.
Þegar Hjálmi hefur verið náð er tímabært að halda áleiðs niður í Seljadal og sveigt í rólegheitunum örlítið til suðvesturs með stefnu á Hulduhól. Niðri í Seljadal verður Nesselsá í veginum og er vandkvæðalaust að hoppa yfir. Smá hækkun er svo upp úr Seljadal og að grjótnáminu. Best er að fara fyrir neðan námið og koma þannig að bílunum.
Þetta er nokkur fjallganga með um 260 metra raunhækkun. Sú hækkun er tekin á um 3,5 kílómetrum þannig að það er frekar róleg hækkun. Af Hjálmi hallar, eins og gefur að skilja, nokkuð undan fæti niður í Seljadal. Göngufæri er svona móar og melar í bland meðan á fjallgöngunni stendur. Seljadalurinn er vel gróinn og þar er best að rata inn á einhverja fjárgötu til að fylgja.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands