Heiti ferðar:
Keilisbörn
Dagsetning:
14. maí 2008
Vegalengd (áætl.):

7-8 kílómetrar

Tími (áætl.)
3-4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið eftir Reykjanesbrautinni þar til komið er að vegvísi sem vísar að Keili og er þar farið út af brautinni. Ekið sem leið liggur eftir malarveginum að Keili og ekki látið staðar numið fyrr en við Höskuldarvelli.
Gengið er eftir göngustíg sem liggur meðfram Oddafelli og honum fylgt yfir hraunið að Keili. Í stað þess að ganga á Keili verður gengið rangsælis með rótum fjallsins og að Keilisbörnum sem eru þrír hnúkar norðaustan við Keili. Milli þeirra er hringlaga dalur. Skammt norðan Keilisbarna er svo Hrafnafell (180 m.y.s.) og þangað er rétt að halda fyrst hingað er komið. Eftir að Hrafnafell hefur verið lagt að velli er göngunni haldið áfram meðfram rótum Keilis. Á hægri hönd er ein stærsta eldstöð Reykjanesskagans, Þráinsskjöldur, en hraun frá henni þekur um 130 ferkílómetra. Nokkuð er síðan síðast kraumuðu eldar þarna, eða um 13.000 ár. Framundan er svo Oddafell og handan þess Núpshlíðarhálsinn þar sem Trölladyngja er hvað mest áberandi.
Frá Keili er svo strauið tekið beint af augum yfir hraunið að Oddafelli. Þegar þangað er komið er tvennt í stöðunni, að ganga meðfram því milli "hrauns og hlíðar" eða fara uppá það og fylgja því eftir þangað sem gangan hófst, það er þó aðeins meira upp og niður.

Ekki er mikil hækkun að þessu sinni, vart meira en 60 metrar. Göngufæri er aðalega um mosavaxið hraun, en móar og melar inn á milli. Greinilegur slóði er frá bílastæðinu að Keili og er hann nokkuð auðgengur.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
www.reykjanesguide.is
Íslenskar eldstöðvar, Ari Trausti Guðmundsson