Heiti ferðar:
Gamli Þingvallavegurinn - hinn endinn
Dagsetning:
14. maí 2008
Vegalengd (áætl.):

10 - 12 kílómetrar

Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið fyrir Select á Vesturlandsvegi (vestanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið sem leið liggur áleiðis til Þingvalla eftir þjóðvegi 36. Við Stórulandstjörn er farið út af þjóðveginum til hægri og inn á gamla Þingvallaveginn sem er malarvegur og er þessi hluti hans vel greiðfær. Honum er fylgt að malarnámi í Vilborgarkeldu þar sem stálfákunum verður lagt og ganga tekur við. Áfram er haldið eftir veginum rúmlega 500 metra, en þá er komið að vegamótum þar Þingvallavegurinn árgerð 1907 mætir Þingvallaveginum árgerð 1930 og skal þar haldið aftur í tímann.
Toppatrítlarar könnuðu syðri enda Þingvallavegarins vorið 2007 og var það nokkuð áhugavert og nú er komið að nyrðri enda hans. Miðbikið verður að bíða betri tíma.
Heldur hefur Konungsvegurinn látið á sjá í tímanns rás, enda vart notaður nema af hestafólki, göngufólki og öðrum sem ekki tekur að nefna. Frá vegamótunum liggur Konungsvegurinn eins og beint strik út á Mosfellsheiðina. Væntanega hafa hólar og hæðir þurfta víkja fyrir konungi, enda hefur mönnum ekki þótt rétt að láta konung fara óþarfa sveig á leið sinni. Víða hefur verið lögð mikil vinna í að hlaða undir veginn og eru mjög smekklegar hleðslur víða á leiðinni ef grant er skoðað.
Haldið er eftir veginum um 5-6 kílómetra inn á heiðina. Á leiðinni eru einhver vörðubrot og sæluhúsatóftir. Ólíklegt er þó að komist verði að tóftum veitingahússins Heiðarblómsins sem rekið var þarna á heiðinni á árunum 1925-1930. Rekstri þar var hætt um leið og vegurinn lagðist af í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930.
Þegar nógu langt hefur verið gengið eftir veginum er farið út af honum til norðurs og gengið yfir móa og mela í átt að veginum þangað sem gangan hófst.
Göngufæri fyrri hluta leiðarinnar er er eftir vegi sem er nokkuð kominn til ára sinna. Víða gæti hafa runnið úr honum og hann grýttur á köflum. Síðari hluta leiðarinnar er farið yfir móa og mela, hefðbundið heiðarlandslag. Einhverjar mýrar gæru verið á leiðinni.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur
http://www.sorli.is/greinar/gamlar_gotur_konungskoman.htm