Heiti ferðar:
Búrfell í Þingvallasveit
Dagsetning:
28. maí 2008
Vegalengd (áætl.):

10 - 12 kílómetrar

Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið fyrir Select á Vesturlandsvegi (vestanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,vaðskór,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið sem leið liggur til Þingvalla eftir þjóðvegi 36. Við Þjónustumiðstöðina er beygt til vinstri inn á þjóðveg 52 og honum fylgt þar til komið er að hestamannasvæðinu við Skógarhóla og þar er farið út af veginum til vinstri. Honum fylgt meðfram fjallsmúla og fyrir hann. Fljótlega má sjá hvar lækur sullast niður gil eitt lítið og er ekið að honum. Vegslóði liggur upp með læknum og má aka hann eins langt og hægt er. Í stuttu máli sagt er þetta sami staður og gangan yfir Leggjabrjót ýmist hefst eða lýkur.
Áðurnefndum vegslóða fylgt fyrstu 3 kílómetrana með Öxará á vinstri hönd og á hægri hönd gnæfir Syðsta-Súla í Botnssúlum. Á hentugum stað er haldið niður að Öxará, vaðskór dregnir fram og áin vaðin á góðum stað. Ætti áin ekki að vera vatnsmeiri en svo að hún nái manni tæplega í hné. Eftir að fætur hafa verið þerraði og gönguskónum komið fyrir á sínum stað verður stefnan tekin til fjalls. Héðan í frá er ein stór brekka upp á topp Búrfells (783 m.y.s). Gott er að hafa hugfast að bæði er fjallið ekkert að fara og brekkan jafn löng þó að maður flýti sér. Þetta þýðir með öðrum orðum að taka bara brekkuna í rólegheitunum. Hún klárast á endanum.
Þegar toppnum hefur verið náð er ágætis útsýni til allra átta að skyggnisskylirðum uppfylltum. Þingvallavatn blasir við í suðri, í norðri eru það Botssúlur sem eiga það útsýni og mót vestri sést yfir Kjöl og mót austri eru það Þingvallafjöllin klassísku, Ármannsfell, Hrafnabjörg og fjöllin þar austur af með Þjóðgarðinn í forgrunni.
Af toppnum á Búrfelli verður strikið tekið til austurs og gengið beina leið í átt að Hrútagili. Á leiðinni þarf aftur að vaða Öxará.
Göngufæri er nokkuð blandað. Til að byrja með er gengið eftir vegslóða en síðan er drjúg brekka upp Búrfellið eftir að Öxará hefur verið vaðin. Niðurleiðin er eftir móum og melum og á lokasprettinum þarf að vaða Öxará aftur. Raunhækkun er um 500 metrar.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.