Heiti ferðar:
Snókafell
Dagsetning:
15. apríl 2009
Vegalengd (áætl.):

6-7 kílómetrar

Tími (áætl.)
2-3 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Ekið eftir Reykjanesbrautinni þar til komið er að vegvísi sem vísar að Keili og er þar farið út af brautinni. Ekið sem leið liggur eftir malarveginum að Keili og alla leið að Höskuldarvöllum þar sem gangan hefst. Á leiðinni má sjá fyrirhugaðan áfangastað, Snókafell, gægjast upp úr úfnu og torfæru Afstapahrauninu á vinstri hönd. Óhjákvæmilega leiðir maður hugann að því hvað Snókafell þýðir, en skv. svari við fyrirspurn hjá Örnefnastofnun þá er þessi skýring gefin:


"Orðið merkir upphaflega 'tota, endi á e-u', t.d. á vinstur. Sbr. Snóksdalur og Snóksey og Snókagjá á Þingvöllum. Snókshólmi í Elliðaám er nokkru fyrir neðan Árbæjarhólma. Snókur merkir ‘fjallstindur, klettastrýta; hali, rani, e-ð langt og mjótt sem gengur út frá e-u stærra, t.d. fjalli’. Snókafell í Afstapahrauni er með rana eða háls út frá sér. Snókalönd í landi Hafnarfjarðar eru Óbrinnishólmi og út úr honum skaga margar totur. Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur telur Snóka-örnefni dregin af jurtinni snókahvönn."


Eftir að hafa ekið alla þessa leið inn að Höskuldarvöllum í gegnum úfið Afstapahraunið kann það að skjóta skökku við að byrja á því að þramma til baka, en þó er nú svo í pottinn búið í þetta sinn. Til að byrja með er gengið til norðurs meðfram lækjarfarvegi sem hlykkjast um svokallaðan Sóleyjarkrika sem er nokkuð grösugt sléttlendi inni í hraunhafinu. Ekki er það nú svo gott að hægt sé að þramma grösugan bala alla leið að Snókafelli heldur þarf einnig að takast á við hraunið og fara yfir það á leiðinni.
Snókafell mælist á kortum vera um 147 metrar yfir sjávarmáli en það rís ekki nema um 50 metra yfir umhverfið þ.a. það er hátt fell að klífa og er aflíðandi upp á það. Ofan af Snókafelli er góð yfirsýn fyrir hraunhafið í kring og er það nokkuð sérstakt að vera inni í því miðju.
Ofan af Snókafelli verður haldið til suðausturs í átt að Lambafelli sem geymir hina sérstæðu náttúrusmíð Lambafellsklofa. Þar er sjón sögu ríkari. Á leiðinni þarf að fara yfir hraunið eina ferðina enn á þessum slóðum er hægt að þræða framhjá því úfnasta. Farið verður um Lambafellslofa upp á Lambafellið og þaðan stefnan tekið að Eldborg en þar er komið inn á veginn og honum fylgt dágóðan spotta að bílunum.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
www.utivist.is
www.ferlir.is
http://www.arnastofnun.is/page/arnastofnun_nafn_fyrirspurnir