Heiti ferðar:
Sauðadalahnúkar
Dagsetning:
29. apríl 2009
Vegalengd (áætl.):

5-6 kílómetrar

Tími (áætl.)
3-4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís (austanmegin) við Suðurlandsveg kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið sem leið liggur upp að Litlu-Kaffistofunni og beygt til hægri út af veginum inn á malarveg sem liggur áleiðis upp í Jósepsdal. Vegurinn upp í dalinn er ekki með þeim betri og kviðlágir þurfa að gæta að sér.
Gangan hefst við vegslóða sem liggur upp með Sauðadalahnúkunum, sem eru tveir, en vegurinn liggur upp með þeim nyrðri. Eins og segir í kvæðinu er gengið áfram veginn en hann liggur upp að skálum tveimur sem einhverjir fjallamenn komu sér upp á árum áður. Liggja þeir austan í hnúkunum. Ekki er þó farið að skálunum strax heldur er farið út af slóðanum og haldið áfram upp norðuröxlina á nyrðri hnúknum og þannig upp á hann (540 m.y.s). Greið leið er niður af nyrðri hnúknum og niður í sem skilur hnúkana að. Í skarðinu eru skálar þeir sem áður er getið.
Heldur ógreiðfærara er upp á syðri hnúkinn (583 m.y.s.) og er hann prýddur móbergsklettum í kollinn. Um 100 metra hækkun er úr skarðinu. Ekki er vel fært allstaðar niður af hnúknum er þó má finna aðrar leiðir en þá sem farin var upp. Rétt er þó að fara varlega.
Þegar búið er að leggja Sauðadalahnúka að velli er haldið suður með hnúkunum og framhjá Skæruliðaskálanum, sem hefur mátt muna fífil sinn fegri. Frá skálanum er svo haldið niður Ólafsskarðið og niður í Jósepsdal og vegslóða fylgt fram dalinn og niður að bílunum.
Þessi ganga er nokkuð á fótinn, svolítið upp og niður meðan verið er að leggja Sauðadalahnúkana að velli. Raunhækkun er mest ca. 250 metrar. Göngufæri er þokkalegt. Vegslóðinn upp með hnúkunum er frekar grýttur og hnúkarnir sjálfir nokkuð lausir í sér. Annars eru bara móar og melar.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók Ferðafélags Íslands 1985.
www.ja.is - Kortavefur
www.ferlir.is
Gönguleiðir á Íslandi, Reykjanesskagi, Einar Þ. Guðjohnsen.
Könnun á staðháttum.