Heiti ferðar:
Trana
Dagsetning:
20. maí 2009
Vegalengd (áætl.):

11-12 kílómetrar

Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið fyrir Select á Vesturlandsvegi (vestanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið verður sem leið liggur eftir Vesturlandsvegi og inn á Þingvallaveg. Við Selholt er beygt til vinstri og ekið í átt að Hrafnhólum og Skeggjastöðum. Þar er farið yfir Leirvogsá á brú og ekið spottakorn niður með henni, en síðan farið til hægri eftir vegslóða sem liggur inn dal þar sem nokkur sumarhúsabyggð er innst. Þessum vegslóða fylgt þar til hann endar við Skarðsá og þar hefst gangan.
Frá bílastæðinu er mjög falleg fjallasýn til Esjunnar. Hömrum klætt Kistufellið gægist yfir Þverárkotsháls. Ofan Þverárkotsháls trónir Hátindur (909 m.y.s.). Móskarðshnúkarnir með sínu ljósa líparíti eru óneitanlega mjög áberandi og stinga svolítið í stúf við nágrennið. Skálafellið handan þeirra eins og punkturinn yfir i-ið (ef það væri nú i í Esja).
Handan Skarðsár er vegslóði sem hlykkast upp brekkurnar upp í Svínaskarð. Þessi leið var forðum aðalleiðin milli Vestur og Norðurlands og byggðanna við Faxaflóa. Eftir að menn fóru að fara vestur fyrir Esjuna þá lagðist þessi leið af. Í dag er þessi slóði aðallega notaður af göngufólki, hestafólki, hjólafólki, mótorhjólavillingum og stöku jeppi fer þarna um. Víða er runnið úr slóðanum, sérstaklega þar sem nokkur er hallinn. Gengið er sem leið liggur þennan slóða alla leið upp í Svínaskarð (481 m.y.s.).
Trana liggur norðan við Móskarðshnúkana og liggur beint við að fara utan í austasta hnúkunum upp í skarð á milli hnúksins og Trönu (743 m.y.s). Nokkuð er á fótinn upp úr Svínakarði og upp á Trönu. Þar þarf þó ekki að skrippla í lausum skriðum eins og á Móskarðshnúkunum heldur er nokkuð fast undir fæti og gróið víða.
Þegar upp á Trönu er komið er rétt að ganga fram á fjallsbrúnina og horfa niður Eyjadal. Rétt er að veita athygli bakhliðinni á Móskarðshnúkunum og er hún ekki síður tilkomumikil en framhliðin.
Nokkar uppgönguleiðir eru á Trönu. Sú sem hér er líst liggur mjög beint við, einnig er hægt að fara upp Möðruvallaháls og svo er nokkuð fáfarin leið upp Múla.
Eftir að hafa spókað sig á Trönu og notið útsýnis er haldið sömu leið niður.
Göngufæri er allra jafna gott. Vegslóðinn er nokkuð grýttur og blautur á köflum. Engir klettar eða klungur eru á leiðinni, en nokkur bratti eins og áður er lýst.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
http://www.fi.is/files/IMG_146094589.pdf
www.ja.is - Kortavefur