Heiti ferðar:
Gamli Þingvallavegurinn - Miðjan
Dagsetning:
27. maí 2009
Vegalengd (áætl.):

8 - 9 kílómetrar

Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið fyrir Select á Vesturlandsvegi (vestanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið verður sem leið liggur eftir Vesturlandsvegi og inn á Þingvallaveg. Skammt fyrir neðan Seljabrekku er farið út af veginum við skilti sem vísar á Bringur og Helgufoss. Veginum fylgt að spennuvirki og beygt þar til vinstri inn á línuveg sem liggur meðfram háspennulínunni á hægri hönd. Þessi vegur er frekar grófur en þó vel fær háfættum vel dekkjuðum jepplingum og þar fyrir ofan. Þessum vegi er fylgt um það bil 4 kílómetra inn á heiðina eða uns kemur að línuvegamótum þar sem tveir línuvegir krossast. Þar verður staðar numið og land lagt undir fót.
Toppatrítlarar könnuðu syðri enda Þingvallavegarins vorið 2007 og var það nokkuð áhugavert. Nyrðri endinn var svo kannaður 2008 og var þá gengið alla leið að veitingahúsinu Heiðarblóminu. Miðbikið er nú eftir og verður það kannað að mestu í þessari ferð.
Til að byrja með verður línuveginum sem komið var inná fylgt til suðurs um 2ja kílómetra leið. Á Háamel sameinast þessi línuvegur Gamla Þingvallaveginum. Þar verður kvæði vent í kross eða snúist á hæl og haldið til norðausturs eftir veginum sem liggur nánast eins og beint strik eftir Mosfellsheiðinni. Á hægri hönd eru Borgarhólar (418 m.y.s.) en þeir eru leifar ævagamallar eldstöðvar sem myndaði Mosfellsheiðina. Þeir eru jafnframt hæsti punktur hennar. Þó svo að við séum einungis í um 300 metra hæð yfir sjávarmáli þá er mjög fín fjallasýn á móti norðri og austri enda fátt sem skyggir á. Eftir rúmlega 2ja kílómetra gang er komið að vegamótum þar sem línuvegurinn sem áður var ekið eftir fer yfir Gamla Þingvallaveginn. Enn er tæplega 2ja kílómetra spotti eftir að tóftum veitingahússins Heiðarblómsins sem rekið var þarna á heiðinni á árunum 1925-1930. Rekstri þar var hætt um leið og vegurinn lagðist af í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930.
Við tóftirnar er tímabært að fara að huga að því að halda til baka og verður stefnan nú tekin eftir vegleysum beina stefnu á upphafstað þar sem gangan hófst. Þangað er um 3ja kílómetra gangur.
Á þessari leið er gengið að mestu eftir slóðum, misfínlegum þó. Sennilega fellur þessi leið í flokkinn jafnsléttulabb, enda mesta hækkun rétt um 40 metrar. Einnig má búast við einhverjum þúfnagangi.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur
http://www.sorli.is/greinar/gamlar_gotur_konungskoman.htm
www.ja.is - Kortavefur