Heiti ferðar:
Móskarðshnúkar
Dagsetning:
3. júní 2009
Vegalengd (áætl.):

8 - 9 kílómetrar

Tími (áætl.)
4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið fyrir Select á Vesturlandsvegi (vestanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið verður sem leið liggur eftir Vesturlandsvegi og inn á Þingvallaveg. Við Selholt er beygt til vinstri og ekið í átt að Hrafnhólum og Skeggjastöðum. Þar er farið yfir Leirvogsá á brú og ekið spottakorn niður með henni, en síðan farið til hægri eftir vegslóða sem liggur inn dal þar sem nokkur sumarhúsabyggð er innst. Þessum vegslóða fylgt þar til hann endar við Skarðsá og þar hefst gangan.
Framundan rísa Móskarðshnúkar þaktir ljósu líparíti sem stingur nokkuð í stúf við bergið allt um kring. í grein sem birtist í Morgunblaðinu í júlí 1980 segir um myndun Móskarðshnúka:

"En hvernig mynduðust Móskarðshnúkar og hvers vegna eru þeir frábrugðnir öðrum nærliggjandi fjöllum bæði að lit og lögun? Jarðvísindamenn segja, að Esjan sé mynduð við eldsumbrot fyrir 2.5 -3 millj. árum. Fyrir um 2 milljónum ára var stór og mikil askja fyllt vatni á svæði sem nú er á milli Skálafells, Móskarðshnúka, Þverárkotsháls og allt suður undir Grimmansfell. Á börmum þessarar öskju voru tíð eldgos og þá mynduðust Móskarðshnúkar. Þeir eru því fornar eldstöðvar og myndaðir úr líparíti, en það berg gefur þeim ljósa litinn og gerir þá svo auðkennda, sem alkunnugt er. En síðan hafa ísaldarjöklarnir, frost, vatn og vindar máð burtu þessi fornu eldvörp að mestu og gefið fjallinu þá lögun sem það hefur í dag."

Eins og áður er getið hefst gangan við Skarðsá. Til að byrja með er vegslóðanum sem liggur yfir Svínaskarð fylgt, en fljótlega er haldið til fjalls og gengið upp tungurnar vestan undir Þverfelli. Á vinstri hönd er Bláhnúkur nokkru hærri. Sé farið of nærri Bláhnúki gerast brekkurnar heldur brattari, þ.a. heldur skal leita í austurátt og taka svo stefnuna á Bláhnúk. Fyrst hann er í leiðinni er tilvalið að skella sér á hann, enda hvorki mikið úr leið né mikil hækkun þegar hingað er komið. Frá Bláhnúki er haldið áfram upp og stefnt á skarðið vestan við austasta hnúkinn. Þegar komið er upp í líparítskriðurnar verður góður slóði á veginun og skal honum upp í skarðið. Úr skarðinu er stefnan tekin á austasta hnúkinn og jafnframt þann hæsta (807 m.y.s). Af honum er ágætis útsýni til norðurs og suðurs en móti vestri og austri skyggja Esjan og Skálafell á. Aftur er haldið niður í skarðið og tiplað eftir hnúkunum hverjum á fætur öðrum alla leið út að Laufskörðum (Laufaskörðum) eða "W" sem sést svo vel úr bænum. Utan í skörðunum var lengi vel einstigi sem menn þurftu að feta sig varlega eftir. Fyrir nokkrum árum tóku menn sig til og lagfærðu einstigið og gerðu það breiðara og settu keðju til að veita öruggt hald, enda eins gott því frekar bratt er niður. Um þá framkvæmd sýnist sitt hverjum. Fyrir þá sem hafa áhuga þá geta þeir farið um skörðin til að kvitta þau út af sakramentinu. Hinir horfa bara á.
Eftir að hafa notið Laufskarðanna er haldið aðeins til baka og farið niður í Skánárdal. Frekar bratt er eftst í honum og getur verið sleipt í bleytu og því rétt að fara varlega. Ekki skal fylgja hryggnum því þar eru klettar sem geta verið erfiðir. Lækjarspræna rennur niður dalinn og er ágætt að halda sig nærri honum. Brattinn minnkar svo smá saman eftir því sem neðar dregur. Á niðurleiðinni er tilvalið að ganga fram á Gráhnúk, fyrst hann er þarna, og taka svo taka svo strikið niður að bílunum þar sem gangan hófst.
Þetta er fjallganga og það bara nokkuð fjölbreytt. Til að byrja með er gengið upp lyngi vaxnar brekkur en þegar ofar dregur er skripplað í skriðum. Nokkur bratti er á niðurleiðinni.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur
http://www.fi.is/files/IMG_834488392.pdf
www.ja.is - Kortavefur