Heiti ferðar:
Hvaleyrarvatn - Kaldársel
Dagsetning:
14. apríl 2010
Vegalengd (áætl.):

8-9 kílómetrar

Tími (áætl.)
3 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið er upp að Hvaleyrarvatni og að suðurenda þess þar sem vélfákum skal parkerað við hús eitt er þar stendur. Veginum fylgt til austurs nokkurn spotta meðfram Selhöfða áleiðis upp í Seldal þar til komið er að brekku. Við brekkuræturnar er farið út af veginum til hægri og gengið suður með Stórhöfða á vinstri hönd og Selhraun á þá hægri. Eftir stutta göngu tekur leiðin að stefna mót austri og nú verður gengið milli hrauns og hlíðar. Á þessum slóðum kallast nú hraunið Stórhöfðahraun. Hraunkantinum er fylgt áfram austur með Stórhöfða og svo upp með Langholti og Fremstahöfða alla leið að Kaldárseli. Skammt fyrir neðan Kaldársel hverfur Kaldá endanlega ofaní hraunið og er vert að veita því athygli hversu ört hún "týnist" því áin er nokkuð vantsmikil uppi við Kaldársel. Talið er að Kaldá renni svo neðanjarðar og komi upp í nágrenni við Straumsvík.
Við Kaldársel er svo tímabært að halda til baka og er gengið eftir veginum til vesturs og áleiðs upp að Kjóadal og farið norðan við Miðhöfða. Þar verður farið þvert yfir dalinn og stefnt Kjóadalsháls, nokkurn vegin miðja vegu milli Selhöfða og Húshöfða sem er framundan á hægri hönd. Af Kjóadalshálsi fer að halla undan fæti niður að Hvaleyrarvatni og skógræktinni þar um kring. Við suðurenda vatnsins bíða svo vélfákarnir þar sem gangan hófst.
Hraunflákinn sem gengið er meðfram er að minnsta kosti byggður upp af tveimur hraunum frá mismunandi tíma. Eldra hraunið rann fyrirum 2000 árum og kom úr Stórabolla í Grindarskörðum Það hraun stíflaði m.a. Hvaleyrarvatn. Yngra hraun liggur svo ofaná því og rann það fyrir um 1000 árum eða svo og átti upptök í Tvíbollum í Grindarskörðum. Það hraun hefur náð alveg niður undir Ástjörn í Hafnarfirði og stíflað útrennslið úr henni til sjávar. Benda má á fróðlega grein í Fjarðarpóstinum á blaðsíðu 6 um hraunin á þessu svæði.
Þetta er frekar auðveld ganga um nokkuð gróið land.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3
, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur
www.fjardarposturinn.is
www.hafnarfjordur.is

www.ja.is - Kortavefur
http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/index.htm
www.ferlir.is