Heiti ferðar:
Drumbur - Krísuvíkur-Mælifell
Dagsetning:
21. apríl 2010
Vegalengd (áætl.):

7-8 kílómetrar

Tími (áætl.)
3 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið er sem leið liggur að Kleifarvatni, suður með því og að Suðurstrandarvegi (427) þar sem er beygt til hægri. Ekið eftir honum u.þ.b. 2,5 km og bílunum lagt þar. Við erum nú stödd við syðri hluta Sveifluháls. Beint framundan er haus er nefnist Drumbur og þangað er ferðinni heitið til að byrja með. Drumbur er eitt af þessum skondnu örnefnum í Sveifluhálsi, því þegar betur er að gáð leynast þar Hattur og Hetta, Huldur og Hulstur, Baðstofa og Bleikhóll svo nokkur séu nefnd. Þegar Drumbi hefur verið náð verður athugað hvort ekki takist að finna Drumbsdalastíg, en hann ku hafa legið um þessar slóðir um Sveifluhálsinn sunnanverðan milli Krýsuvíkur og Vigdísarvalla. Gengið er þvert yfir hálsinn eftir stígnum, ef hann finnst, allt þangað til að eldbrunnin Móhalsadalurinn tekur við vestan Sveifluhálsins. Á vinstri hönd, til suðurs, rís svo Krýsuvíkur-Mælifell (226 m.y.s.) og þanagð verður förinni heitið næst. Litlir móbergshryggir liggja suður með hálsinum og er þeim fylgt allt suður að fellinu sem er nokkuð snarpt uppgöngu. Haldið er áfram suður af Krýsuvíkur-Mælifelli og niður á veg og honum fylgt þangað sem gangan hófst.
Alls eru 12 Mælifell vítt og breytt um Íslandi og eru tvö þeirra á þessum slóðum. Mælifellin hafa verið höfð til viðmiðunar með einhverjum hætti, sem eyktamörk eða til að rata eftir, þar sem þau eru oft keilulaga og auðþekkjanleg langt að. Nafngift fellanna fylgdi og jafnan staðsetningum mælingastöðva danskra landmælinga- og kortagerðamanna um og í kringum aldarmótin 1900. Þau kort eru enn talin hin mestu nákvæmissmíð.
Þetta er þægileg ganga með ekkert of mikilli hækkun í heildina. Land er heldur gróðurlitið á sjálfum Sveifluhálsinum þó víða megi finna grænar torfur hér og þar.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands.
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands.
Árbók FÍ 1985, Þættir um nágrenni Reykjavíkur
www.ja.is - Kortavefur
http://ferlir.is/?id=3581
http://ferlir.is/?id=6804
http://ferlir.is/?id=7659