Heiti ferðar:
Ölkelduháls-Reykjadalur-Dalafell
Dagsetning:
28. apríl 2010
Vegalengd (áætl.):

7-8 kílómetrar

Tími (áætl.)
4 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís (austanmegin) við Suðurlandsveg kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið eftir Suðurlandsveginum upp á Hellisheiði. Um það bil þar sem vegurinn fer að halla undan niður Kambana er farið út af honum til vinstri við skilti sem vísar veginn inn á Ölkelduháls og ekið eftir honum þangað inneftir. Þegar þangað er komið er mikið háhitasvæði á hægri hönd og á vinstri hönd er blásandi (kannski) borhola og þar verður bílunum lagt.
Byrjað er á því að ganga nokkuð eftir veginum til baka, en fljótlega farið út af honum og niður með Ölkelduhnúki á vinstri hönd þar sem land hallar undan niður í Klambragil. Á þessum slóðum ætti að vera greinilegur stikaður gönguslóði. Slóðanum fylgt niður Klambragil og sem leið liggur niður í Reykjadal. Heitur lækur rennur um Klambragil og á niðurleiðinni renna í hann nokkrir kaldir lækir sem tempra í honum hitann og búa til ágætis ástæðu til að skella sér í bað, gæta þar þó að hitastigi, séu menn á þeim buxunum (eða ekki). Áfram er haldið eftir greinilegum gönguslóða niður Reykjadal. Dalurinn ber nafn með rentu, enda eru gufustrókar hér og þar í dalnum. Þegar niður dalinn er komið þrengist hann nokkuð og heitir það Djúpagil. Slóðin fer nú yfir Reykjadalsánna og eilítið niður gilið að norðanverðu og utan í Dalafelli (347 m.y.s) sem er á vinstri hönd. Þar er tímabært að yfirgefa slóðann og halda upp á fellið eftir hrygg sem gengur fram úr því. Hækkunin er ekki mikil, sennilega rétt um 100 metrar. Þegar upp er komið er ferðinni svo haldið áfram norður eftir hálsinum sem Dalafell er í. Eftir tæpa 2 km göngu er komið að Dalskarði og lækkum við okkur niður í það Reykjadalsmegin. Í skarðinu var lítill gönguskáli, Dalsel, er hann brann fyrir nokkrum árum. Gönguslóði liggur frá skálarústunum utan í Dalskarðshnúki og upp á Ölkelduháls og er honum fylgt þangað sem gangan hófst.
Þetta er skemmtileg og fjölbreytt gönguleið. Mikið er um hveri og heitar laugar á leiðinni og landslagið ber þess merki að mikill hiti er í jörðu. Mesta hækkun og lækkun er rétt um 100 metra. Mest er gengið eftir troðnum merktum slóðum en þess utan melar og nokkuð gróið.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands
http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Utivistarsvaedi/Gonguleidir/

http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Aevintyriagongufor/
http://notendur.centrum.is/~ate/index.htm