Heiti ferðar:
Húsmúli-Sleggja-Engidalur
Dagsetning:
05. maí 2010
Vegalengd (áætl.):

12-13 kílómetrar

Tími (áætl.)
4 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís í Norðlingaholti (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið eftir Suðurlandsveginum upp í Svínahraun og farið út af honum til vinstri að Hellisheiðarvirkjun.Á móts við virkjunina er farið til vinstri út á gamla veginn yfir Svínahraun. Eitthvað hefur sá vegur tekið stakkaskiptum við allt umstangið þarna en ekið eftir nokkurn spotta og honum fylgt þar sem hann sveigir nokkuð til norðurs frá upphaflega veginum. Nærri Draugatjörn verður svo látið staðar numið.
Stefnan er tekin strax til fjalls eða fells öllu heldur og haldið á Húsmúla. Hækkun upp Húsmúla og að undirhlíðum Sleggju er tæplega 300 metrar og er hækkunin tekin á um 2 km. Til að komast svo upp á Sleggju er farið upp móbergskletta og skriður. Þegar upp er komið fljótlega komið inn á gönguleiðina sem liggur eftir henni og upp á Skeggja (805 m.y.s), en Skeggji bíður hins vegar betri tíma. Gönguleiðinni fylgt norður Sleggju með Innstadal á hægri hönd og Engidal á þá vinstri. Niður í Engidal er snarbratt klettaflug, en gaman er að líta a.m.k. niður en gæta sín. Gönguleiðin er ekki alveg slétt og felld, heldur þarf að skrippla í skriðum og príla pínu, en það er bara til að krydda. Fallegt útsýni er á leiðinni til austur og vesturs. Eftir að hafa gengið um 2 km norður eftir Sleggju er komið að krossgötum þar sem leiðin heldur áfram upp á Skeggja annars vegar og svo niður í Marardal og Engidal hins vegar. Hér verður farið niður af Sleggju og svartri stikaðri leið fylgt niður en þegar þangað er komið er farið til vinstri og tekur þá Engidalur við. Engidalur er opinn mót norðri en austan við hann gnæfa snarbrattir klettar Sleggju. Í Engidal er göngskáli sem Orkuveitan á, samskonar og var í Reykjadal. Áfram er gengið út dalinn og farið yfir Engidalskvísl og að norðurhlíðum Húsmúla og gengið meðfram honum þangað sem gangan hófst.
Draugatjörn og umhverfi er eitt merkilegasta kennileitið á þessu svæði. Hin forna þjóðleið yfir Hellisheiði lá hér um og í árdaga var hér sæluhús sem var mjög reimt í. Sökum reimleika var sæluhúsið síðar flutt að Kolviðarhól árið 1844. Húsmúli er fell sem gengur suðvestur úr Henglinum og er í raun helmingur af fornri dyngju. Á kortum lítur Húsmúli út eins og skel á hvolfi og hæsti punktur hans sagður vera í um 616 m.y.s. Sá hæðarpunktur virðist þó vera á Sleggju sem er móbergsrani sem gengur suður úr Henglinum og Húsmúli liggur upp að. Um þennan hæðarpunkt verða aðrir að deila. Segja má að Sleggja marki að vissu leiti vesturhluta Hengilsins en handan Sleggju, austan við, tekur Innstdalur við.
Þetta er frekar krefjandi ganga, bæði eftir merktum og ómerktum leiðum. Hún er nokkuð löng og er hækkun rúmlega 400 metrar. Seinni hluti leiðarinnar frá Engidal og að Draugatjörn er sléttur að því leytinu til að ekki er mikið um hækkun og lækkun, en kanski meira um þúfur og holt. Einhver vegalagning hefur átt sér stað í nágrenninu og vera má að hægt sé að létta sér gönguna til baka með því að strauja veginn.
Göngufæri er eftir móum og melum að mestu. Einhverjar skriður og brekkur verða á leiðinni. Að minnsta kosti verður ein brött brekka leiðinni. Flestum til ánægju verður hún farin niður.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands
http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Utivistarsvaedi/Gonguleidir/

http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Aevintyriagongufor/
http://notendur.centrum.is/~ate/index.htm
http://is.wikipedia.org/wiki/Hengill