Heiti ferðar:
Litli-Skolli - Skolli - Skollagróf
Dagsetning:
12. maí 2010
Vegalengd (áætl.):

10 - 11 kílómetrar

Tími (áætl.)
3-4 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís í Norðlingaholti (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið eftir Suðurlandsvegi og eftir Nesjavallaleið áleiðs austur í Grafning. Þegar komið er að afleggjaranum heim að Nesjavöllum er haldið áfram eftir Grafningsveginum rúmlega 1 kílómeter og er þar látið staðar numið á Hagavíkurvöllum, við þurran lækjarfarveg er rennur undir veginn. Þar hefst gangan.
Gengið er upp með áðurnefndum farvegi rúmlega 2,5 km eftir nokkuð grónu landi milli hálsa. Þá er haldið til vinstri upp Hvítuhlíð og þaðan að Litla-Skolla sem virðist vera lítill hnúkur í landslaginu. Á næstu grösum / melum eru svo Skolli og Skollagróf skammt norður af Krossfjöllum (325 m.y.s.). Framundan gnæfir Hengillinn yfir sundurskorinn af gufuspúandi giljum sem bíða síðari tíma. Gengið er suður eftir Skollagróf og síðan sveigt til vesturs (hægri) og haldið í átt að Stangarhálsi. Land er nú þarna frekar gróðurlítið skorið af litlum giljum og skorningum. Haldið er upp á Stangarháls og gengið norður eftir honum þangað sem gangan hófst á Hagavíkurvöllum.
Skollarnir sem á undan er getið hafa sennilega fátt eitt unnið sér til frægðar nema það að vera skondin örnefni í senn fallegu og hrjóstrugu umhverfi. Væntanlega vísa þessi örnefni til fjöskrúðugs samfélags refa á þessum slóðum.
Þessi ganga er eftir móum og melum. Nokkrir ásar og hálsar verða á veginum en engir þess eðlis að menn fái andateppu yfir þeim sé á annað borð í lagi með menn.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands
http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Utivistarsvaedi/Gonguleidir/

http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Aevintyriagongufor/
http://notendur.centrum.is/~ate/index.htm