Heiti ferðar:
Þórnýjartindur
Dagsetning:
19. maí 2010
Vegalengd (áætl.):

7 - 8 kílómetrar

Tími (áætl.)
4 - 5 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið hjá Select við Vesturlandsveg, kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið sem leið liggur eftir Vesturlandsveginum og inn Hvalfjörðinn og áleiðis eftir Miðdalsvegi að Eilífsdal. Ekið er spottakorn fram hjá bænum Eilífsdal farið inn á veginn sem liggur að sumarhúsabyggðinni í Elífsdal. Fljótlega er farið yfir brú og síðan strax út af veginum til hægri eftir slóða inn í malarnám. Ekið er e-ð eftir þeim slóða og helst að komast yfir ánna sem kemur niður Elífsdal. Þar verður fákunum lagt og land lagt undir fót.
Þegar yfir ánna er komið, fótgangandi eða á bíl, er haldið upp með henni spottakorn. Þórnýjartindur (648 m.y.s) er eins og skipsstafn (á hvolfi) á hægri hönd og liggur leiðin upp á hann eftir s.k. Múlarönd. Á hentugum stað er stefnan tekin til fjalls, rólega enda er þetta nokkuð brött leið. Varast skal að fara of mikið til hægri þegar upp er komið því að snarbratt er niður í Hrútadal. Þegar upp á brúnina er komið er haldið áfram inn fjallið með brúnir Elífsdals á vinstri hönd og áleiðis inn að Gunnlaugsskarði. Þar er farið niður og leitað að greinilegri fjárgötu sem liggur um Hrafnagil og Djúpugil. Farið er eftir þessari götu í snarbröttum hlíðum Eilífsdals og að Hrafnagili. Við fyrstu sýn er gilið frekar óárennilegt en sé götunni fylgt reynist leiðin greið um gilið. Vissara er að gæta fóta sinna á leið um gilið því gatan gæti verið hál ef blautt er á. Gangan um þetta gil er nokkuð mögnuð enda er snarbratt bæði fyrir ofan og neðan. Þegar gilinu sleppir er haldið áfram eftir fjárgötunni og farið ofarlega í Djúpugiljum og sem leið liggur yfir á Múlarönd þar sem við komum upp. Haldið er niður röndina og sem leið liggur þar sem gangan hófst.
Þórnýjartindur er ekki mjög árennilegur við fyrstu sýn sökum þess hve brattur hann er, en þegar á hólminn er komið er ekki allt sem sýnist og leiðin nokkuð greið þó brött sé. Þegar upp er komið er hægur stígandi inn á Hábungu (914 m.y.s.).
Gunnlaugsskarð er skarð í Esju þar sem vel er fært milli dala, t.d. Eilífsdals og Blikdals. Á þessum slóðum er Esja hvað "mjóst".
Þetta er nokkuð strembin ganga. Frekar bratt er bæði upp og niður og gengið er í bröttum hlíðum.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands
www.ja.is - Kortavefur

http://ferlir.is/?id=6763