Heiti ferðar:
Hrómundartindur - Tindagil
Dagsetning: 26. maí 2010 Vegalengd (áætl.): 10 - 11 kílómetrar Tími (áætl.)4 - 5 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís í Norðlingaholti (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið eftir Suðurlandsveginum upp á Hellisheiði. Um það bil þar sem vegurinn fer að halla undan niður Kambana er farið út af honum til vinstri við skilti sem vísar veginn inn á Ölkelduháls og ekið eftir honum þangað inneftir. Þegar þangað er komið er mikið háhitasvæði á hægri hönd og á vinstri hönd er blásandi (kannski) borhola og þar verður bílunum lagt.
Hrómundartindur (561 m.y.s.) er hæsta fell í Grafningi að Hengli og Ingólfsfjalli undanskildu. Gangan hefst á Ölkelduhálsinum sjálfum og er þaðan gengið til norðausturs yfir hverasvæðið og inn á merkta gönguleið og henni fylgt yfir hálsinn. Leiðin sveigir svo meira til norðurs og er þá Tjarnarhnúkur á vinstri hönd. Tjarnarhnúkur er fagurlega löguð gjallkeila sem er vert að ganga á í góðu tómi. Áfram er haldið eftir gönguleiðinni og nú taka Lakaskörð við á vinstri hönd. Lakaskörðin eru skrautlegir skúlptúrar úr móbergi sem vindur og vatn hafa blásið og sorfið til í gegnum tíðina. Nú er gönguleiðin yfirgefin og stefnan tekin upp í skarðið milli Lakaskarða og Hrómundartinds. Nokkuð snörp hækkun er upp á Hrómundartind. Þegar upp á tindinn er komin tekur við ævintýraleg ganga eftir honum endilöngum, þar sem ýmist er gengið utaní honum eða ofaná. Gríðarlega fallegt útsýni er til allra átta. Rétt er að veita athygli Kattarjörnum sem liggja austan við tindinn. Þær virðast vera gamlir sprengigígar frá ísöld, með miklum klettabörmum og eru nokkuð fallegar á að líta. Neðri tjörnin og sú stærri er afrennslislaus en úr þeirri efri og minni rennur lítill lækur niður í Tindagil og hverfur þar. Þegar niður af tindinum er komið er haldið til hægri upp Tindagil en um það liggur gönguleiðin sem áður var fylgt. Það er nokkuð grýtt á köflum en með smá lagni er ekkert mál að klöngrast það alveg ánægjunar virði. Víða er það nokkuð þröngt en ekkert til að hafa áhyggjur af. Gilinu sleppir svo skammt frá Kattatjörnum og verður haldið þaðan sem leið liggur eftir gönguleiðinni upp á Ölkelduhálsinn þar sem gangan hófst.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að undir Hrómundartindi er kvikuhólf og er oft litið á það sem sjálfstætt eldstöðvakerfi, Hrómundartindskerfið. Í næsta nágrenni, undir Henglinum, er annað kvikuhólf sem telst vera sér eldstöðvakerfi, Hengilskerfið. Stundum er svo litið á þess tvö kerfi sem eitt og þá tvímiðja.
Þessi leið er ekki ýkja erfið þó svo að eitthvað sé um "upp og niður", en þar er ekki um stórfelldar hæðarbreytingar að ræða. Raunhækkun upp á Hrómundartind er rétt rúmlega 150 metra og lækkun niður í Tindagil er um 350 metrar en síðan tekur við róleg 200 metra hækkun upp á Ölkelduhálsinn.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands
http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Utivistarsvaedi/Gonguleidir/

http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Aevintyriagongufor/
http://notendur.centrum.is/~ate/index.htm