Heiti ferðar:
Vatnshlíð - Hvammahraun - Vatnshlíðarhorn
Dagsetning: 02. júlí 2010 Vegalengd (áætl.): 12 - 13 kílómetrar Tími (áætl.)4 - 5 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður
Lýsing:

Ekið sem leið liggur áleiðs til Krýsuvíkur. Þegar komið er framhjá Vatnshlíðarhorni er fljótlega afleggjari til hægri niður að Lambhagatjörn og er bílunum lagt þar og land lagt undir fót.
Vegslóði liggur eitthvað áleiðs suður með Kleifarvatni, misgóður á köflum og er honum fylgt meðan hægt er suður með vatninu. Hlíðin sem gengið er með á vinstri hönd kallast Vatnshlíð og markar hún suðurmörk hálendisins milli Bláfjalla og Kleifarvatns. Norðurhluti þessa hálendis, þ.e. hlíðin sem liggur upp með Bláfjallaveginum, kallast svo Langahlíð. Áður fyrr gekk Vatnshlíð undir heitinu "Hrossabrekkur" og þóttu illfærar, jafnvel ófærar, en í seinni tíð hafa brekkurnar verið færar. Til marks um það hversu hlíðarnar voru illfærar þá lá svokölluð Dalaleið, sem lá frá Krýsuvík austur fyrir Kleifarvatns og að Kaldárseli, uppi á Vatnshlíðinni meðfram brúnum hennar og kom svo niður í Fagradal norðan við Vatnshlíðarhorn. Eftir að hafa paufast milli hlíðar og vatns drjúgan spotta er komið þangað sem mjór hrauntaumur hefur runnið út í Kleifarvatn. Er það Hvammahraun sem á upptök sín uppi í Brennisteinsfjöllum og hefur fallið hér niður í vatnið. Hér er gengið upp með hrauninu og liggur nú leiðin upp á hálendið sem áður er minnst á. Brátt sést að þessi mjói taumur sem hefur runnið út í vatnið er einungis lítill hluti af mun meira hrauni sem hefur fallið niður í stóra kvos í miklum hrauntaum. Gengið er áfram upp með hrauninu og sveigir nú leiðin meira til norðurs ásamt því að nokkur hækkun á sér stað upp á hálendið. Gengið er norður hálendið meðfram hrauninu allt þar til hrauntaumurinn fer að falla niður í Fagradal. Þar er sveigt til vesturs fram á Vatnshlíðarhorn og gengið niður það af hálendinu og allt þangað sem gangan hófst.
Kleifarvatn er stærst stöðuvatna á Reykjanesskaganum, um 10 ferkílómetrar að stærð og tæplega 100 metra djúpt. Er það 3. stærsta stöðuvatnið á Suðurlandi. Vatnið liggur á mjög virku svæði jarðfræðilega þar sem nánasta umhverfi einkennist af miklum umbrotum í jarðskorpunni, jarðhita, jarðskjálftum og jarðeldum. Hvarvetna í nágrenninu má sjá einhver merki um það sem gengur á í neðra. Í jarðskjálftunum í júní 2000 þá opnuðust sprungur í botni Kleifarvatns og lækkaði við það umtalsvert í vatninu. Stóðu þá á þurru hverir við sunnanvert vatnið sem allra jafna voru á kafi í vatni. Vatnið hefur nú nánast náð fyrri vatnshæð og hverirnir komnir undir vatn.
Hvammahraun á uppruna sinn í gígaröð vestan til í Brennisteinsfjöllum og er þetta hraun annar af tveimur meginstraumum sem frá eldstöðinni hafa runnið. Hluti þessa hraunstraums sem rann niður í Fagradal.. Hinn hraunstraumurinn kemur svo niður við Herdísarvík.
Þetta er nokkuð löng og krefjandi ganga. Land er getur verið ógreiðfært á köflum. Hraunjaðrinum er fylgt eins og kostur er en vera kann að farið verði yfir eina og eina tungu til að stytta sér leið. Uppi á hálendinu er land nokkuð gróið. Víða er gengið ofan á grónu helluhrauni.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands

http://ferlir.is/?id=4357
http://ferlir.is/?id=4358
http://ferlir.is/?id=4359