Heiti ferðar:
Skeggi
Dagsetning: 09. júní 2010 Vegalengd (áætl.): 8 -9 kílómetrar Tími (áætl.)4 - 5 tímar
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís í Norðlingaholti (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður
Lýsing:

Ekið eftir Nesjavallaveginum og gegnum Dyrfjöllin. Uppi á Kýrdalshrygg, við stóran tank er þar stendur, er numið staðar og land lagt undir fót.
Byrjað er á því að klofa yfir volduga gaddavírsgirðingu, á Prílu, sem einhverjum snillingi hefur dottið í hug að setja þarna. Þar er merkt gönguleið áleiðis eftir Kýrdalshrygg og verður henni fylgt eftir því sem hentar. Á hryggnum skilja svo leiðir við merktu leiðina en áfram verður haldið eftir hryggnum allt þar til komið er inn á svart stikaða leið sem liggur þvert á leið okkar. Er þar haldið inn á svörtu leiðina til vinstri og gengið eftir henni að næsta vegapresti sem sýnir stefnuna til fjalls og er þá stefnan tekin þangað. Þetta er nokkuð brött leið eftir sillum undir háum klettum. Komið er upp á Hengil um miðja vegu milli Nesjavallaskyggnis og Skeggja og skiptast þar leiðir enn og aftur. Haldið er til hægri eftir svartri leið að Skeggja og við tekur ganga eftir gróðursnauðum melum og ásum að Skeggja sem rís upp af melunum um 400 metra í burtu. Síðasti áfanginn er svo upp Skeggja sjálfan eftir greinilegri slóð sem liggur sunnan í honum sem tekur svo sveig upp á hátoppinn og erum við þá stödd í um 805 metra hæð yfir sjávarmáli.
Farið er sömu leið niður að Skeggja eftir slóðanum, en í stað þess að halda áfram eftir stikuðu leiðinni er farið til norðurs og niður gil sem er ausan undir Skeggja. Þetta gil er nokkuð bratt og grýtt allra efst og því gott að fara varlega. Eftir því sem neðar dregur verður það greiðfærara og brattinn verður minni. Framundan er Skeggjadalur, langt og mjótt dalverpi umkringt klettum alveg í botninn en breikkar svo þegar út dalinn er komið. Haldið er áfram niður í dalinn og landamerkjagirðingu fylgt sem klífur dalinn að endilöngu. Þetta er nokkuð grösugur dalur og í honum geta skapast skemmtileg birtuskilyrði við réttar aðstæður. Segja má að dalurinn sé lokaður í báða enda því í nyrðri endanum skiptist hann í tvennt og lokar klettahaft honum vinstra megin og lágur ás hægra megin og er það leiðin sem fyrir valinu verður. Brátt blasir svo Nesjavallavegurinn við og er þá óhætt að fara að sveigja til austur í átt að vatnstankinum sem trónir uppi á hæðinni framundan og demba sér í síðustu brekkuna, upp.
Hengillinn er gríðarlega skemmtilegt svæði til göngu og hægt að velja um ótal leiðir sem eru ólíkar hvorri annarri og við allra hæfi, stuttar og langar. Fjallganga á Skeggja er kanski ekki auðveld, en skemmtileg og fjölbreytt ganga. Raunhækkun er rúmlega 400 metrar og raunlækkun niður í Skeggjadal tæplega 500 metrar.
Göngufæri er eftir stikuðum leiðum og óstikuðum, skriður, melar, grasi grónir balar og klettasillur verða á leið okkar.

Kort:
Heimildir:

Sérkort - Suðvesturland, 1:75000, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 3, Landmælingar Íslands
Kortadiskur 4, Landmælingar Íslands
http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Utivistarsvaedi/Gonguleidir/

http://www.or.is/Umhverfiogfraedsla/Aevintyriagongufor/
http://notendur.centrum.is/~ate/index.htm
http://is.wikipedia.org/wiki/Hengill