Heiti ferðar:
Hafravatn-Borgarvatn-Bjarnarvatn
Dagsetning:
13. apríl 2011
Vegalengd (áætl.):
7 - 8 kílómetrar
Tími (áætl.)
3 - 4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís í Norðlingaholti (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Allar sveitir eiga sínar uppsveitir, líka Mosfellssveit, nú Mosfellsbær. Skammt ofan Mosfellsbæjar liggur vatn eitt er Hafravatn heitir. Þjóðsagan segir að í því búi nykur sem lítur út eins og grár hestur, nema hvað hófar hófar hans snúa öfugt. Nykurinn er þeirrar náttúru að sá sem sest á bak honum situr það fastur og getur enga björg sér veitt er kvikyndið tekur á rás út í Hafravatn þar sem það hefur aðsetur. Eina leiðin til að losna af baki er að nefna nafn hans: "Nykur" eða "Nennir".
Gangan hefst við gamla fjárrétt við suðaustur enda Hafravatns. Þar er skilti með gönguleiðum sem Skógræktarfélag Mosfellsbæjar hefur komið fyrir í jaðri skógræktar sinnar í Þormóðsdal, upp af Hafravatni. Skógræktarfélgið hefur þar til umráða um 54 ha. lands og hefur plantað í það síðan 1986. Gengið er gegnum skógræktina þangað til komið er inn á vegaslóða sem liggur m.a. upp á Hafrahlíð, fjallið fyrir ofan Hafravatn. Hafrahlíð hefur m.a. verið notuð af svifdrekamönnum til að svífa fram af. Vegaslóðinn liggur áfram norður með hlíðinni í átt að Reykjaborg en þar undir er Borgarvatn, ranglega nefnt á kortum Bjarnarvatn. Gengið norður fyrir vatnið en úr því rennur lækur niður í Varmá. Haldið upp á Þverfell og þá sést niður að Bjarnarvatni sem ranglega nefnt á kortum Borgarvatn, þar sem Varmá á upptök sín. Gengið verður að upptökum Varmár og ef tími vinnst til, þá verður gengið kringum vatnið og yfir Bæjarfell til baka þangað sem gangan hófst.
Ekki er vitað af hverju þessi ruglingur á nöfnum hefur átt sér stað, en á kortum frá Landmælingum þá eru þau rétt merkt inn, Borgarvatn, undir Reykjaborg og Bjarnarvatn undir Torfadalshrygg. Bæði á Kortavef ja.is og í MapSource kortunum fyrir Garmin GPS tæki, þá eru bæði vötnin ranglega nefnd. Svona nafnaruglingur er víst ekki óþekktur í kortagerðarbransanum.
Göngufæri er til að byrja með eftir göngustígum og vegaslóðum, en síðan taka móar og melar við. Raunhækkun er um 200 metrar þar sem hæst verður farið.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort
www.ferlir.is/?id=10662
www.lmi.is