Heiti ferðar:
Keilir
Dagsetning:
11. maí 2011
Vegalengd (áætl.):
8 kílómetrar
Tími (áætl.)
3-4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Keilir er eitt þeirra fjalla sem er hvað mest áberandi frá höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan Esju,sökum þess hversu reglulegt það er í lögun og staðsetningin áberandi þar sem það stendur svolítið eitt og sér. Þetta er fagurlagað fjall, nánast eins úr öllum áttum og spennandi verkefni til uppgöngu

Keilisgangan hefst við Höskuldarvelli. Fyrst í stað er gengið spottakorn meðfram jaðri Afstapahrauns uns komið er að greinilegum slóða sem liggur til vesturs yfir hraunið. Á þessum slóðum er hraunið frekar úfið en slóðinn þvert yfir það gerir gönguna auðveldari. Þegar klöngrinu líkur er haldið yfir nokkuð slétt land og kúrsinn tekinn á rætur Keilis hægra megin og gengið upp grunnt gildrag upp á norðausturhrygg fjallsins. Efst á þessum hrygg er svolítill klettastallur norður úr háfjallinu, og er stefnt vinsta megin við hann. Á þeirri leið er sæmilega fast undir fæti og greiðfært upp og frá klettastallinum er örstutt á sjálfan toppinn, 378 m.y.s. Af toppi Keilis er gott útsýni til allra átta, að því gefnu að veðrið bjóði upp á það. Til þess að þurfa ekki að fara sömu leið til baka er farið niður suður af fjallinu og haldið í austurátt þegar niður er komið, með stefnu á Oddafell. Einhver gönguslóði er yfir hraunið á þessum slóðum og er best að reyna að hitta á hann.

Frá Höskuldarvöllum að Keili er drjúgur gangur, rúmlega 3 km. og raunhækkun upp á topp er um 180 metrar, þannig að þetta verður fínn göngutúr og smá uppímóti.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort