Heiti ferðar:
Fuglafriðlandið í Flóa
Dagsetning:
18. maí 2011
Vegalengd (áætl.):
4-6 kílómetrar
Tími (áætl.)
2-3 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís í Norðlingaholti (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Flæðiengjar og tjarnir setja svip á friðlandið, en það nær með austurbakka Ölfusár frá Nesósi skammt norðan Óseyrarbrúar að landamerkjum Sandvíkurhrepps í Straumnesi og spannar það yfir stóran hluta jarðanna Óseyrarness og Flóagafls. Stærð friðlandsins er um 5 ferkílómetrar, það er um 1-1,5 km á breidd og telst ásamt Ölfusforum til ósasvæðis Ölfusár sem er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Landið er lágt og meðalhæð yfir sjávarmáli aðeins um 2 metrar. Á stórstreymi gætir sjávarfalla í friðlandinu. Í góðu skyggni er fjallasýnin úr friðlandinu stórbrotin.

Víða á engjunum eru minjar um Flóaáveituna. Áveitan mikla var gerð á árunum 1922-1927, þá var vatni úr Hvítá veitt yfir stóran hluta sveitarinnar. Alls voru grafnir 300 km af áveituskurðum og hlaðnir um 540 km af flóðgörðum, smíðaðar um 200 brýr og jafnmargar stíflur. Á sínum tíma var þetta umfangsmesta framkvæmd í íslenskum landbúnaði og var veitan sú stærsta í Evrópu. Stuttu eftir að áveitan var tekin í notkun, hefst tími framræslunnar í íslenskum landbúnaði og var þá hluta áveitunnar breytt í fráveitu.

Nesbrú og Melabrú, hinar gömlu þjóðleiðir milli Eyrarbakka og Kaldaðarness og Selfoss, liggja um austurhluta friðlandsins. Göturnar eru sums staðar enn vel sjáanlegar. Fornar bæjartóftir í Óseyrarnesi eru friðlýstar.

Skammt vestur af gömlu Flóagaflsbæjunum er þyrping mógrafa. Vatnið í þeim er blátært, með miklu smádýralífi og skemmtilegum gróðri. Mógrafirnar sameina minjar um horfna menningu og athyglisvert lífríki.

Votlendisfuglar einkenna friðlandið og eru bein tengsl við nálæg fuglarík svæði eins og fjöruna, Ölfusárós og Ölfusforir. Fuglalífið er sérstaklega auðugt og tegundaríkt á varptíma.

Af andfuglum verpur álft (3-4 hjón), grágæs (tugir), stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd og toppönd. Grafandarhreiður hefur fundist, og gargendur og skeiðendur sést á varptíma, en þessar endur eru allar sjaldgæfar hér á landi.

Töluvert æðavarp er í Kaldaðarneseyjum í Ölfusi, undan Flógaflsengjum. Lómur verpur víða við tjarnir og í eyjunum. Hettumáfs- og kríuvörp eru á nokkrum stöðum og sækjast endur og mófuglar eftir að verpa í þeim. Stöku kjói, sílamáfur og svartbakur verpa í landinu.

Þeir fuglar sem setja mestan svip á votlendið eru mófuglarnir. Þær tegundir sem verpa í mýrunum eru lóuþræll, spói, jaðrakan, hrossagaukur, óðinshani og þúfutittlingur. Heiðlóur verpa á þurrum stöðum. Þéttleiki verpandi lóuþræla hefur hvergi mælst meiri hér á landi og á Flóagaflsengjum og sama má segja um jaðrakan við Kaldaðarnesflugvöll. Þéttleiki óðinshana er og óvenjumikill.

Á fartíma vor og haust ber mest á grágæs og blesgæs, öndum eins og rauðhöfða og skúfönd, ýmsum vaðfuglum eins og hrossagauki, svo og steindepli.

Kort:
Heimildir:

http://www.fuglavernd.is/index.php/floifuglar
http://www.arborg.is