Heiti ferðar:
Kerhólakambur
Dagsetning:
25. maí 2011
Vegalengd (áætl.):
6 kílómetrar
Tími (áætl.)
4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Select við Vesturlandsveg (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Skráðar gönguleiðir á Esju eru um eða yfir 50. Þar fyrir utan eru klifurleiðir, hjólaleiðir, skíðaleiðir, skokkleiðir o.fl. Sú algengasta og jafnframt fjölfarnasta er leiðin upp á Þverfellshorn. Alla leiðina eru þægilegir göngustígar og gott að setja sér markmið hve hátt upp skuli fara. Margir láta sér duga að fara "upp að steini" meðan aðrir fara alla leið upp á Þverfellshorn. Leiðin sem nú verður fyrir valinu er sú sem liggur upp á Kerhólakamb sem sperrir sig í 851 m.y.s.

Fyrir þá sem hafa farið venjulegu leiðina upp á Þverfellshornið, 750 m.y.s., á Esjunni, þá er leiðin upp á Kerhólakambinn nokkuð brattari og farið heldur hærra upp. Það skemmtilega við leiðina upp á Kerhólakamb er að þar eru bara tvær brekkur á leiðinni. Fyrri brekkan nær alveg upp á Kambshornið og sú seinni og styttri, afganginn upp á Kerhólakambinn sjálfan. Smá príl er allra neðst.

Þar sem ekki er um margar niðurgönguleiðir að ræða án þess að lengja ferðina þónokkuð, þá verður sama leið farin niður.

Gengið er upp frá gömlu malarnámi sem er dálítið austan við bæinn Esjuberg. Mastur með vindmæli og e-u tæknidóti er við veginn þar sem beygt er af Vesturlandsveginum upp í malarnámið. Gengið upp með ánni sem kemur úr Gljúfurdal, sem er nú eiginlega gil neðst, er fylgt inn í gilið og síðan er klöngrast upp úr því og upp á tungu sem er á milli tveggja gilja, Bolagils og Hestgils, og strikið síðan tekið upp á topp. Ef vel viðrar er mjög gott útsýni í allar áttir af Kerhólakambinum og vel þess virði að kíkja þangað upp. Eins og gefur að skilja er öll leiðin á fótinn.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort