Heiti ferðar:
Krýsuvíkurberg
Dagsetning:
09. maí 2012
Vegalengd (áætl.):
8-9 kílómetrar
Tími (áætl.)
4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Það var víst Dr. Sigurður Þórarinsson sem fyrstur kom fram með það að stofna fólkvang á Reykjanesi upp úr 1948. Það var hins vegar ekki fyrr en 1975 sem fólkvangurinn var formlega stofnaður. Reykjanesfólkvangurinn er í dag eitt stærsta friðlýsta svæði landsins og spannar hann um 300 ferkílómetra. Dr. Sigurður hafði þó stærri hugmyndir en þetta varð lendingin að fólkvangurinn spannar svæðið frá Heiðmörk í norðri og dreifir svo úr sér eftir því sem sunnar dregur, með Brennisteinsfjöll, Kleifarvatn, Sveifluháls og Núpshlíðarháls innan sinna marka allt til sjávar við Krýsuvíkurberg.

Krýsuvíkurberg er eitt stærsta fuglabjarg landsins og það stærsta á Reykjanesskaganum. Helstu íbúar þess eru Rita, Fíll og allskonar svartfuglstegundir. Fengsæl fiskimið eru undan landi og ekki óalgengt að sjá báta að veiðum fyrir utan. En hafið ekki bara gefur, heldur tekur það líka. Undir Krýsuvíkurbergi hafa fjölmargir skipskaðar orðið í gegnum tíðina með tilheyrandi hamförum. Sem betur fer hafa björgunarstörf gengið vel þarna, oft við hrikalegar aðstæður, en það er önnur saga.

Gangan hefst við Selöldu, sem er að öllum líkindum gamall gígur sem hefur myndast við gos undir sjó fyrir langa, langa, langa löngu. Haldið verður rakleiðis í suðvestur í átt til sjávar við Þyrsklingastein, á þeim slóðurm þar sem Ögmundarhraun rennur til sjávar. Síðan er gengið með bjargbrúninni allt að vitanum á Krísuvíkurbergi, um 5-6 km. leið. Á leiðinni er gengið framhjá Heiðnabergi sem er sennilega einn tilkomumesti hluti Krýsuvíkurbergs. Frá vitanum er gengið eftir vegslóða að Skriðu og farið þar norður fyrir og yfir Selöldu þangað sem gangan hófst.

Ekki er um mikla hækkun að ræða á þessari leið, einhverjar brekkur, fláar og hallar eru vissulega á leiðinni. Ýmist er gengið eftir melum eða móum á bjargbrúninni.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort

http://atlas.lmi.is/ornefnasja/

http://www.ferlir.is