Heiti ferðar:
Selklettar-Nesjavallahraun-Krummar
Dagsetning:
16. maí 2012
Vegalengd (áætl.):
7 kílómetrar
Tími (áætl.)
2-3 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís í Norðlingaholti (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:

Það er ekki langt að fara í sveitasæluna í Grafningnum, rétt rúmlega hálftíma akstur frá borgarmörkunum. Grafningurinn er eins og nafnið gefur til kynna nokkuð grafinn og skorinn af náttúrunnar hendi þar sem langir hálsar teygja sig frá Hengilinum niður að Þingvallavatni, margir hverjir skildir að af djúpum giljum, skorningum og dölum. Það eru þó ekki bara hálsar, gil, skorningar og dalir í í Grafningnum, heldur er hann nokkuð gróinn þar sem heiðarmóar og kjarri vaxnar lendur deila með sér landinu. Í Grafningnum er líka nokkuð áberandi hraun, Nesjavallahraun, sem rann fyrir um 2000 árum og á upptök sín í sprungu sem liggur um Rauðuflög, fyrir ofan Nesjavelli, og síðan til NA um Selkletta. Nesjavallahraun dreifir úr sér og lætur ekki staðar numið fyrr en í Þingvallavatni, um 5 km. frá upptökum.

Gangan hefst við gatnamótin þar sem vegurinn yfir Hengilinn mætir Grafningsveginum. Gengt gatnamótunum er gamalt malarnám þar sem stórum og miklum gjallgígum hefur verið mokað burtu. Gengið er suður og austur fyrir þessar námur og blasir þá Nesjavallahraun við. Stefnan núna tekin til norðurs og gengið meðfram gígaröðinni sem er framundan en Nesjavallahraun er komið úr þessum gígum fyrir margt löngu síðan eins og áður segir. Er gígaröðinni sleppir taka við lágir ásar á vinstri hönd kjarri vaxnir með melum inn á milli og kallast þeir Krummar. Tún Nesjabónda fara nú að koma í ljós og er þá haldið upp á Krummana. Handan þeirra er þó nokkur sumarhúsabyggð, gjarnan kennd við Hestvík. Stefnan er nú tekin til suðurs og gengið til baka eftir Krummunum þangað sem þeir enda við Botnadal. Þaðan er haldið eilítið í austur yfir að Litlu-Svínahlíð sem er lágur ás og gengið eftir honum þangað sem gangan hófst.

Þetta er frekar létt ganga í fallegu grónu landslagi.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort

http://atlas.lmi.is/ornefnasja/