Heiti ferðar:
Þyrill
Dagsetning:
22. maí 2012
Vegalengd (áætl.):
9-10 kílómetrar
Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Select við Vesturlandsveg (austanmegin) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður fótabúnaður,göngustafir og skjólfatnaður.
Lýsing:


Það sem vekur einna helst athygli þegar ekið er um innanverðan Hvalfjörð eru fjöllin sem ganga í sjó fram og snarbrattir hamrarnir í þeim mörgum. Eitthvað hafa þau haft með að gera oft rysjótt veður í Hvalfirði sem margir bílstjórar fengu að kenna á þegar skyndilega var rifið í stýrið og farartækið öðlaðist sjálfstæðan vilja tímabundið. Þá var eins gott að vera vel vakandi sem stundum var erfitt þegar ekið var fyrir Hvalfjörð. Eitt tilkomumesta fjallið í Hvalfirði er Þyrill (393 m.y.s.)

Gangan á Þyril hefst á sama stað og þegar Síldarmannagötur eru gegnar, skammt fyrir norðan gamla Botnsskálann. Greinilegur slóði liggur upp hlíðar Selfjalls, sem kallast Síldarmannabrekkur. Ekki erúr vegi að taka örlítinn útúrdúr og ganga að Brunná þar sem Paradísarfoss fellur fram af klettastalli og grafið sig niður í bergið fyrir neðan. Slóðanum fylgt upp Síldarmannabrekkur og áleiðis að Reiðskarði. Þar skilur leiður og verður haldið beint út á Þyril. Af Þyrli er eitt glæsilegasta útsýnið yfir Hvalfjörðinn, enda stendur hann svolítið sér og hærra en fjöllin í næsta nágrenni. Snarbratt er fram af Þyrli, en tvær leiðir eru þekktar þar upp á Þyril. Helguskarð er framarlega á Þyrli, kennt við Helgu Jarlsdóttur, konu Harðar úr Harðarsögu og Hólmverja. Hún á að hafa stormað upp skarðið með tveimur barnungum sonum sínum og haldið yfir í Skorradal. Hin uppgönguleiðin er Indriðastígur, nokkuð austan við Helguskarð. Indriðastígur er kenndur við Indriða bónda á Indriðastöðum í Skorradal en hann tengist líka Harðarsögu og Hólmverja. Þessi Indriði á að hafa vegið Þorstein Gullknapp, banamann áðurnefnds Harðar. Báðar þessar leiðir eru brattar og grýttar. Óvíst að látið verði á niðurgöngu reyna þessar leiðir.

Áður en haldið er til baka er ekki úr vegi að ganga yfir að norðurbrúnum Þyrils og líta niður í Litlasandsdal þar sem Bláskeggsá rennur fram. Elsta steinbrú landsins, byggð 1907, er yfir þá á í dalnum.

Haldið sömu leið til baka.

Þetta er frekar létt fjallganga. Göngufæri er eilítið uppímót til að byrja með en síðan er gengið yfir móa, mela og holt fram á brúnir Þyrils.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort
http://atlas.lmi.is/ornefnasja/