Heiti ferðar:
Umhverfis Hlíðarvatn - Hjólaferð
Dagsetning:
05. júní 2013
Vegalengd (áætl.):
25-30 kílómetrar
Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður hjólabúnaður, auka slanga og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið sem leið liggur eftir Krýsuvíkurveginum gegnum Krýsuvík og að Suðurstrandaveginum. Þar er beygt til vinstri og ekið að Sýslusteini, u.þ.b. miðja vegu milli Eldborgar undir Geitahlíð og Herdísarvíkur. Við steininn verður hjólunum sleppt lausum.

Suðurstrandavegurinn er nokkuð beinn og breiður vegur milli Grindavíkur og Þorlákshafnar. Víða liggur hann í fyrra vegstæði en allra jafna heldur fyrir sunnan það. Fyrir austan Herdísarvík sveigir vegurinn suður fyrir Hlíðarvatn og yfir Víðisand. Skammt þar frá er hið fornfræga býli Vogsósar, þar sem Séra Eiríkur á Vogsósum réði ríkjum á sínum tíma. Hann er hvað frægastur fyrir það að hafa ginnt hóp af Púkum til að flétta reipi úr sandi. Þó svo að nýr Suðurstrandarvegur sé kominn, þá er hinn gamli sem liggur fyrir norðan Hlíðarvatn, enn brúkhæfur. Með því að nýta þessa tvo vegi opnast fyrir möguleikan að hjóla kringum Hlíðarvatn.

Fyrirhugðu hjólaleið er öll nokkuð aflíðandi, bæði upp og niður. Fyrri hluti leiðarinnar ef eftir nýja Suðurstrandaveginum eftir bundnu slitlagi. Farið er framhjá Herdísarvík þar sem Einar Benediktsson skáld hélt til. Til að komast norður fyrir Hlíðarvatn er haldið inn á gamla veginn sem er hefðbundinn malarvegur og liggur hann undir hálendisbrúnni þaðan sem hraunspýjur, ættaðar úr Brennisteinsfjöllum, hafa fallið niður í gegnum aldirnar. Þegar komið er norður fyrir vatnið sveigir vegurinn nokkuð ákveðið til suðurs og er haldið drjúgan spotta eftir honum að Suðurstrandaveginum. Á hægri hönd sést heim að Vogsósum. Frá Suðurstrandarveginum er ekki ýkja langur túr niður í Selvog og má líta á það sem útúrdúr ef tími vinnst til. Stefnan er hins vegar tekin til vestur yfir Víðisand, framhjá Herdísarvík og að Sýslusteini þar sem túrinn hófst.

Þetta er nokkuð fjölbreyttur hjólatúr. Hjólað er um gróið hraun, eftir malarvegum og með bundnu slitlagi, framhjá vatni, meðfram sjónum, yfir sanda og gróið land. Einhverjar hæðir eru á leiðinni, engin þeirra stór. Byrjað og endað er í um 60 m.y.s og lægst er farið í um 10 m.y.s. Þessar hæðatölur marka hæsta og lægsta punkt í ferðalaginu.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort
http://atlas.lmi.is/ornefnasja/