Heiti ferðar:
Litla-Kóngsfell - Stórkonugjá
Dagsetning:
12. júní 2013
Vegalengd (áætl.):
10 kílómetrar
Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður hjólabúnaður, auka slanga og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið eftir nýja Bláfjallaveginum áleiðis að hlíðinni löngu, Lönguhlíð og að neyðarskýli því sem er við veginn fyrir neðan Grindarskörðin. Gengið verður upp í Grindarskörð, en um þau liggur gamla þjóðleiðin úr Hafnarfirði yfir í Selvog, Selvogsgata. Þegar upp skörðin er komið er haldið í vestur og gengið yfir holt og hæðir uns Hvirflinum er náð sem rís 621 m.y.s. Gangan upp í Grindarskörð er ekki mjög erfið, nokkuð aflíðandi hækkun er langleiðina upp.

Þegar komið er upp í Grindarskörðin haldið áfram eftir greinilegri Selvogsgötunni nokkurn spöl og niður smá slakka. Framundan má sjá greinilega slóð og vörður í nokkuð beinni línu. Fyrir neðan slakkan ætti að vera önnur gata, kannski ekki eins greinileg og Selvogsgatan, til vinstri og stefnir hún á Litla-Kóngsfell. Þessi gata kallast Suðurferðaleið og liggur frá Litla-Kóngsfelli um Hvalskarð og þaðan nánast beint niður í Selvog.

Litla-Kóngsfell er nú ekki mikið um sig, en þó eru í því tveir gígar. Fellið gegnir líka veigamiklu hlutverki þar sem í því mætast landfræðilegir punktar Herdísarvíkur og Reykjanesfólksvangs sem og hreppamörk fyrir Grindavíkurhrepp, Selvogshrepp og Ölfushrepp, a.m.k. meðan hreppar voru til staðar. Eins og Litla-Kóngsfell hefur verið mikilvægur punktur, þá gætir vissrar ónákvæmni í nafngiftum á því. Sumstaðar er talað um Kóngsfellin þrjú, Kóngsfell, Stóra-Kóngsfell og Litla-Kóngsfell (Drottningu). Á Herforingjaráðskortunum síðan 1910 er Litla-Kóngsfell merkt sem "Gígur" og Konungsfell merkt þar sem við þekkjum sem Stóra-Bolla í dag.

Í norðaustur frá Litla-Kóngsfelli liggur gjá ein nokkuð mikil er Stórkonugjá nefnist. Þar á að hafa búið tröllkona ein. Eftirfarandi þjóðsaga er til um Stórkonugjá:
Þórir haustmyrkur, landnámsmaður í Selvogi, lagði veg yfir Grindarskörð. Var þá svo mikill skógur, að hann þurfti að setja afberkta raftagrind á skarðsbrúnina vestanverða, til þess að hitta rétt á Skarðið, þegar ferð lá yfir fjallið. Fékk vegurinn og skarðið nafn af þessari grind. Fyrir vestan veginn er Kerlingaskarð, líklega nefnt eftir skessu þeirri er talinn er hafa búið í Stórkonugjá. Eitt sinn sá Þórir til ferða þessarar kerlingar, er hann var að huga að sauðum sínum. Elti hann hana, og náði á hæsta fjalla kjöl. Bar hún þá fullbyrði af hval. Hann þóttist eiga hvalinn og vildi drepa hana en hún keypti sér frið við hann, þar sem hún var óviðbúin, og hét að láta sauði hans ekki renna vestur af fjalli, heldur halda þeim í heimahögum. Heitir það Hvalhnjúkur þar sem þau fundust.

Stórkonugjá er í raun misgengi sem liggur í þessari klassísku Sv-Na stefnu eins og svo margt annað á þessu landi. Skammt fyrir norðan gjánna eru svo Þríhnúkar. Hugmyndin er að ganga meðfram gjánni og sveigja svo í átt að Stóra-Bolla og ganga niður með honum austanverðum og þangað sem gangan hófst.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort
http://atlas.lmi.is/ornefnasja/

www.ferlir.is