Heiti ferðar:
Fagradalsfjall-Kast-Borgarfjall
Dagsetning:
21. maí 2014
Vegalengd (áætl.):
10 kílómetrar
Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Kirkjugarðinn í Hafnarfirði (við gömlu Reykjanesbrautina) kl. 18:30, stundvíslega.

Búnaður:
Nesti, góður skóbúnaður og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið er til Grindavíkur og þar inn á Suðurstrandarveginn til austurs. Ekið langleiðina að Ísólfsskála (á hægri hönd) en þar er sveigt til vinstri inn á vegarslóða sem liggur meðfram fjallinu Slögu og að minni Drykkjarsteinsdals þar sem gangan hefst.

Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu þar sem það rís hæst (391 m.y.s). Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar.

Gangan hefst sem sagt við Slögu. Þaðan er haldið til norðurs eftir merktri gönguleið sem er hluti af öðrum legg Reykjavegarins. Undir Borgarfjalli sveigir Reykjavegurinn meira til vesturs, en áfram skal haldið mót norðri og er þá komið inn á Sandakrastíg og liggur hann meðfram Fagradalsfjalli allt að Kasti (140 m.y.s.) þar sem hann sveigir út í hraunið að Stóra-Skógarfelli. Við Kast þá liggur leið upp á við (uppkast) og inn á Fagradalsfjall, yfir Görn og fram á Stórhól og Borgarfjall (231 m.y.s.) þar sem farið verður niður og að upphafsstað.

Þann 3. maí 1943 gerðist sá atburður við Fagradalsfjall að bandarísk herflugvél með Frank. M. Andrews æðsta manni herafla Bandaríkjanna í Evrópu fórst á Fagradalsfjalli eftir að hafa villst af leið í aðflugi til Reykjavíkur. Allir sem um borð voru, 14 manns, fórust. Sá sem tók við af Andrews hershöfðingja sem yfir maður herafla bandabanna í Evrópu var kallaður Ike og bar eftirnafnið Eisenhower. Hann átti eftir að gera garðinn frægan á vígvellinum og utan hans.

Þetta er nokkuð greiðfær leið, nokkuð slétt hraun og gróið, melar og lítilsháttar skriðuskrippl.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort
http://atlas.lmi.is/ornefnasja/