Heiti ferðar:
Múli - Svínaskarð
Dagsetning:
28. maí 2014
Vegalengd (áætl.):
10 kílómetrar
Tími (áætl.)
4-5 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Þjónustustöð Select við Vesturlandsveg (að vestanverðu) kl. 18:30

Búnaður:
Nesti, góður skóbúnaður og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið sem leið liggur eftir Vesturlandsvegi, upp Mosfellsdal og eftir Þingvallaveginum upp á Mosfellsheiði. Þar vegurinn liggur hvað hæst er beygt til vinstri niður Kjósaskarðsveg og að sumarhúsahverfinu í Svínadal, rétt við Möðruvelli í Kjós. Þar er ekið gegnum hverfið eins langt og hægt er og hefst gangan þar.

Skarðið á milli Esju og Skálafells heitir Svínaskarð og þar var áður nokkuð fjölfarin leið frá Reykjavík og Reykjanesi norður í land. Skarðið sjálft er í um 481 m.y.s. og eru efstu brekkurnar, beggja vegna nokkuð á fótinn. Eins og ýmsir aðrir fjallvegir hafa þeir tekið sinn toll af ferðamönnum sem hafa lagt leið sína þar um. Síðasti mannskaðinn í Svínaskarði varð á aðfangadag árið 1900 er 15 ára piltur, Elentínus Þorleifsson frá Hækingsdal í Kjós varð úti á heimleið frá Reykjavík. Fannst hann látinn í skafli í háskarðinu.

Leiðin liggur til að byrja með eftir vegaslóða sem liggur upp í Svínaskarð og að rótum Múla. Múli er fjallsrani sem gengur norð-austur úr Trönu (743 m.y.s) og er nokkuð brattur uppgöngu. Um hann liggur nokkuð fáfarin leið á Trönu. Ef tími er til er tilvalið að skella sér fram á Trönu. Rúmlega 100 metra hækkur er frá brúnum Múla og upp á Trönu. Nokkuð bratt er niður beggja vegna Múla, en hátt til lofts og vítt til veggja þegar upp er komið.

Þegar upp á Múla er komið má halda áfram fram á Trönu, eins og áður segir, eða stefna á austasta hnúk Móskarðshnúka og halda niður í skarðið á milli Múla og hnúkanna og þannig niður í Svínaskarðið. Vegaslóðanum sem byrjað var að fylgja, er svo fylgt niður skarðið þangað sem gangan hófst.

Göngufæri er nokkuð gróið, en grýtt á köflum. Vegaslóðinn er svona eins og vegaslóðar eru, vegaslóði.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort
http://atlas.lmi.is/ornefnasja/