Heiti ferðar:

Kýrgil

Dagsetning:
17. maí 2015
Vegalengd (áætl.):
6 kílómetrar
Tími (áætl.)
4 klukkustundir
Stefnumótsstaður:

Bílastæðið við Olís við suðurlandsveg (að austanverðu) kl. 18:30 stundvíslega

Búnaður:
Nesti, góður skóbúnaður og skjólfatnaður.
Lýsing:

Ekið eftir Suðurlandsvegi með stefnu á Hveragerði. Uppi á Hellisheiði, þegar halla fer undan er farið út af veginum til vinstri inn á veginn sem liggur að Ölkelduhálsi. Ekið eftir honum inn á borsvæðið og látið staðar numið á einhverju borplaninu. Vegurinn er nokkuð grófur á köflum.

Stefnan er tekin strax til fjalls með stefnu á Kýrgilshnúk sem trónir 500 m.y.s. Merkt gönguleið ætti að verða þangað. Á hægri hönd er Kýrgil. Frá hnúknum má sjá niður eftir Kýrgili sem er hömrum girt eftir því sem ofar dregur og þónokkuð djúpt. Neðst í gilinu rennur svo lækur sem á upptök sín uppi á Henglinum. Á móts við Kýrgilshnjúk sveigir gilið all snarlega til norðurs þar sem það fellur bratt ofan af stalli, og svo þar rétt fyrir ofan aftur til vesturs. Niðurleiðin af Kýrgilshnúki er eftir lausri skriðu vestan í honum, og er þó nokkur lækkun. Er þá komið niður á stall, sem gæti alveg verið misgengisstallur, og honum fylgt til norðurs og á leiðinni farið yfir lítil gildrög og svo yfir Kýrgilið sem, þegar þarna er komið, vart meira en lítill gilskorningur þar sem lækurinn fellur fram af stöllum og niður í fallega hylji.

Fer nú land heldur að taka stakkaskiptum og brúna móbergið sem hefur verið allsráðandi fer heldur halloka fyrir hverasoðnum svæðum, með gulleitum blæ. Brátt opnast fyrir augum kvos ein mikil og litskrúðug, með gufuhverum í botninum. Vert er að staldra við og virða dýrðina fyrir sér og halda svo niður hrygg til austurs og lækka sig. Þessum hrygg fylgt alveg niður að gilrótunum og þarf að stikla lækinn á steinum, rétt fyrir innan mikinn leirhver sem er þar á lækjarbakkanum.
Þegar búið er að stikla lækinn er haldið áfram til austurs upp litla kvos og gengið í gegnum hverasvæði með sjóðandi hverum. Haldið áfram upp eftir kvosinni til suðurs og yfir hana og upp á hjallann fyrir ofan. Er þá nokkuð bein leið til suðurs eftir sléttum hjallanum og upp eina brekku. Ef þetta er góð leiðalýsing þá ættu menn að lenda beint á bílastæðinu þar sem gangan hófst.
Þetta er ekkert sérlega strembin leið en töluverðar hæðabreytingar eru, þó svo að þær séu ekki ýkja miklar. Mesta hækkun er um 150 metrar og mesta lækkun um 200 metrar. Göngufærið er mismunandi, ógreinilegur slóði yfir þýfðan móa, smágrýttir melar og lausar skriður og fjárgötur. Einn lækur veður á veginum, en hann er hægt að stikla á steinum, nú eða í versta falli að vaða.

Kort:
Heimildir:

www.ja.is/kort
http://atlas.lmi.is/ornefnasja/

Hengilsvæðið, gönguleiðir, staðhættir, jarðfræði, FÍ 1996