Um Toppatrítl

Feril Toppatrtílara má rekja alveg aftur til ársins 1996 þegar hópur starfsmanna hjá Reiknistofu bankanna hóf strangar æfingar fyrir göngu yfir Fimmvörðuháls þá um sumarið. Sett voru niður á blað mjög svo göfug og stígandi markmið sem voru að ganga á kolla, hnjúka og fjöll í nágrenni höfuðborgarinnar í hækkandi röð sem náðu svo hámarki sínu með göngu yfir Hálsinn.

Á vormánuðum 1997 voru rifjuð upp afrek fyrra árs og umræða fór í gang um að halda bæri skipulagðri útivist í nágrenni höfuðborgarinnar áfram. Hófst þá leit að einhverjum ungum, ólofuðum, fjallmyndarlegum og nægilega áhugasömum aðila til að gera út Toppatrítlið. Hann fannst og síðan þá hefur sá hinn sami setið uppi með ómagann og gert hann að sínum.

Strax um vorið 1997 voru fyrir línur lagðar fyrir Toppatrítlið sem síðan þá hafa verið hafðar að leiðarljósi við alla skipulagningu sem haldið hefur verið í lágmarki. Markmiðin voru þau að alltaf skildi farið, sama hvernig veðrið væri, alltaf væri farið af stað á sama tíma, stundvíslega, og algert einræði yrði með allt leiðaval, framkvæmd og skipulagningu. Við þessu hefur enginn hreyft mótmælum.

Nokkuð misjafnt hefur verið á milli ára hvernig ferðir hafa verið farnar og hversu lengi hefur verið að. Besta raun hefur gefið að byrja upp úr miðjum apríl og vera að til loka júnímánaðar. Á þessu tímabili hefur jafnan náðst góð þáttaka og birtuskilyrði hagstæðust. Ferðirnar hafa verið allt frá 3 km. og upp í 14 km. á einni kvöldstund og oft ekki komið í bæinn fyrr en eftir miðnætti. Ef veður hefur verið sérstaklega gott þá hefur klukkunni oft verið gefið frí og menn bara notið þess að vera fjarri ys og þys þéttbýlisins.

Vorið 2000 var útbúin vefsíða fyrir Toppatrítlið, www.toppatrítl.org, þar sem skapaðist vetvangur til að miðla upplýsingum til trítlara sem og fyrir gesti og gangandi að hafa gagn og gaman af. Nokkuð hefur verið farið inn á síðuna af öðrum enn trítlurm og hefur aðsókn að henni aukist jafnt og þétt.

Ýmislegt hefur drifið á dagana í Toppatrítli. Í tvígang hafa Toppatrítlarar lent í jarðskjálfta, fyrst þann 4. júní 1998 er trítlarar voru á göngu á Hellisheiði þegar allt lék þar á reiðiskjálfi. Til að kóróna ferðina hristist hópurinn nánast á upptökum stærsta skjálftans kl. 21:40 þá um kvöldið. Komst hópurinn í beina útsendingu á Bylgjunni fyrir vikið í fréttatíma kl. 22:00. Í Þjóðhátíðarskjálftanum 17. júní 2000 var verið að ganga við Ölkelduháls þegar allt fór af stað og jörð nötraði og skalf. Varð þá einum trítlara að orði þar sem hann sat klofvega á þúfu: "Strá...kar...... finnið.... þið.... jarð....skjálft....ann!"